Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Ekki tímabært að herða aðgerðir

27.07.2020 - 18:44
Kamilla Jósefsdóttir
 Mynd: Fréttir
Ekki er tímabært að herða aðgerðir vegna hópsmitsins sem kom upp núna um helgina. Þetta segir Kamilla Sigríður Jósefsdóttir, sérfræðingur í sóttvörnum hjá Embætti landlæknis. Hún segir að það geti þó breyst verði verulegt samfélagssmit.

„Núna er verið að fara yfir þau smit sem komið hafa undanfarið og skoða hvort það sé eitthvað sem hefði verið hægt að koma í veg fyrir,“ segir Kamilla. Hún segir að sérstaklega sé verið að horfa til þeirra einstaklinga sem hafi ekki ferðast erlendis. „Hvar þeir gætu hafa komist í snertingu við veiruna. Við teljum að þeir sem eru nýkomnir til landsins hafi samt sem áður smitast hér á landi,“ segir Kamilla.

Spurð hvort hún telji að fleiri geti verið smitaðir í samfélaginu en þegar hafa greinst segir Kamilla ekki hægt að svara því. „Við vitum það ekki. Þess vegna þurfum við að vera mjög vel vakandi, almenningur og heilsugæslan.“

Hún segir að nú sé unnið að því hjá Heilsugæslunni á höfuðborgarsvæðinu að bæta aðgengi þeirra sem eru með væg einkenni að sýnatöku. „Hópsýkingin er á suðvesturhorninu og er ekki bundin við eitt sveitarfélag. Aðilar í þessum hópi hafa verið að ferðast um landið þannig að við getum ekki alveg útilokað að þetta hafi ekki komið víðar við. Þannig að það þurfa allir að vera vakandi.“

Við þurfum að vera vel á verði

Kamilla segir að eins og staðan sé núna sé ekki tilefni til að herða takmarkanir á fjölda fólks sem má koma saman. Ekki sé tímabært að stíga skref til baka. „En við þurfum að vera vel á verði. Ef frekari dreifing verður eða hópsýkingin, sem við vitum af nú þegar, reynist hafa fleiri anga en við vitum um, þá getur verið að það þurfi að skoða það mjög alvarlega.“

 Þið hafið semsagt ekki gefið út leiðbeiningar eða tilmæli til ráðherra um það? „Nei, ekki um neinar verulegar breytingar á þeim ráðstöfunum sem eru í gildi.“