Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Dregur úr asparfræjum en grasfrjó enn á sveimi

27.07.2020 - 15:54
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Aðeins er farið að draga úr asparfræjunum sem svifið hafa um undanfarið í hvítum bómullarhnoðrum. Ellý Guðjohnsen, sérfræðingur hjá Náttúrufræðistofnun Íslands, segir að tveir til þrír toppar hafi verið af grasfrjói í sumar en enn þá sé mikið eftir af frjótímabilinu.   

Grasfrjó á sveimi fram í september

Niðurstöður mælinga birki- og grasfrjókorna eru birtar vikulega en það eru þær tegundir sem helst valda ofnæmi á Íslandi. Birkifrjó var á ferðinni í maí og náði hámarki í byrjun júní, bæði á höfuðborgarsvæðinu og Akureyri. Ellý segir að núna sé grasfrjó helst í loftinu. 
 
„Þetta er búið að vera nokkuð jafnt, það hafa komið tveir þrír toppar af grasfrjói, bara á góðviðrisdögum.“

„Ef þurrt veður er og vindur þá berst það víða grasfrjóið en svo þegar rignir þá dettur þetta niður. En grösin eru að blómgast eiginlega allt sumarið, bara mismunandi tegundir þannig að þetta getur verið í loftinu hvenær sem er á sumrin.“

Magn frjós hefur verið svipað og síðustu ár sem voru í meðallagi. Enn þá er mikið eftir af frjótímabilinu því grasfrjó getur verið í loftinu fram í miðjan september. 

Farið að draga úr asparfræjum

Undanfarna daga hafa hvítir hnoðrar svifið um í loftinu og lagst yfir eins og hvít ábreiða.
 
„Það eru asparfræin sem eru að fljúga hér um í hvítum bómullarhnoðrum einhvers konar en það eru fræin, frjóið af öspinni var í maí.
 
Mér sýnist á trjánum að þetta sé farið að minnka og þá er þetta fljótlega búið. Þetta eru kvenaspirnar sem eru að dreifa þessu og þetta fer að klárast sýnist mér,“ segir Ellý.

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV