Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

COVID-19: Þúsundir fluttar frá Danang

27.07.2020 - 08:51
epa08566445 People wearing face masks walk at a street in Hanoi, Vietnam, 26 July 2020. Vietnam has recently confirmed two new cases of local transmission of the coronavirus, which causes the COVID-19 disease.  EPA-EFE/LUONG THAI LINH
Fólk á götu í Hanoi, höfuðborg Víetnams. Mynd: EPA-EFE - EPA
Yfirvöld í Víetnam ætla að flytja um 80.000 manns frá borginni Danang eftir að þrír borgarbúa greindust með kórónuveirusmit í gær.

Það eru einkum ferðamenn sem fluttir verða frá Danang, en heimamenn hafa talsvert verið á faraldsfæti þótt landið sé enn lokað fyrir erlendu ferðafólki.

Gert er ráð fyrir að flutningarnir taki minnst fjóra daga og að flognar verði daglega um eitt hundrað ferðir til ellefu borga landsins.

Mikill viðbúnaður hefur verið í Víetnam síðan tilkynnt var í fyrradag að þar hefði greinst fyrsta kórónuveirusmitið í landinu síðan í apríl.

Þar hafa gilt strangar reglur um sóttkví og sýnatökur, en samkvæmt opinberum tölum hafa þar einungis 420 manns greinst með kórónuveirusmit, en enginn dáið úr COVID-19.

Kristján Róbert Kristjánsson
Fréttastofa RÚV