Athugið þessi frétt er meira en 3 ára gömul.

Auðvelt að svíkjast undan fylgiréttargjöldum

Mynd með færslu
 Mynd:

Auðvelt að svíkjast undan fylgiréttargjöldum

27.07.2020 - 16:03

Höfundar

Fara þarf í allsherjar endurskoðun á fylgiréttargjöldum af listaverkum. Aðalheiður Dögg Finnsdóttir Helland, framkvæmdastjóri Myndstefs, segir fylgiréttargjaldið vera sterk og góð réttindi sem þó sé auðvelt að svíkjast undan að greiða.

Þegar listaverk ganga endursölu á listamaðurinn rétt á greiðslu svo nefnds fylgiréttargjalds, sem nemur 10% af söluandvirði verksins fyrir þau verk sem seljast undir 3.000 evrum.

Nokkur misbrestur er hins vegar á að gjaldið sé greitt. Anna Eyjólfsdóttir formaður Sambands íslenskra myndlistarmanna (SÍM), segir talsvert um kvartanir vegna þessa. „Það er alveg vitað að það er svolítið um að þessi gjöld eru að týnast með einhverjum hætti,“ segir hún og kveður þó minna um það um slíkt hjá þeim listamönnum sem eru í fastri sölu.

Það á að greiða fylgiréttargjöld af öllum seldum listaverkum,“ segir Aðalheiður Dögg og kveður erfingja listamanna til að mynda ekki geta afþakkað greiðslurnar. „Þetta eru sterk og góð réttindi sem eru hugsuð til þess að listamaðurinn njóti góðs af því hvernig verk hans eru verðsett. Vandinn er hins vegar sá að það er auðvelt að svíkjast undan.“

Ekki séríslenskur vandi

Vandinn er ekki séríslenskur. Málið var tekið fyrir hjá samtökunum International Art Association í fyrra og verður aftur á dagskrá samtakanna í ár.

„Þetta stórt vandamál víða í heiminum og það kemur að því að það verður að setja nýjar reglur eða fara almennilega yfir þessi mál,“ segir Anna.

Uppboðshús, gallerí og ýmiskonar milliliðir sjá gjarnan um sölu á listaverkum. Öllum þessum aðilum og raunar hverjum þeim sem selur listaverk endursölu ber að sjá um greiðslu fylgiréttargjaldsins. Sumir endursöluaðilar greiða gjaldið samviskusamlega, en ekki allir.

Ekki vita allir af gjaldinu, en Aðalheiður Dögg segir Myndstef líka kunnugt um fólk sem svíkst viljandi um. „Við vitum af ákveðnum aðilum sem vita af gjaldinu og eru að svíkjast um. Þeir hafa skoðanir á gjaldinu og skilja ekki alveg tilganginn með því.“

Ekki til heildstætt yfirlit yfir söluna

Þar sem enginn skrá er til yfir slíka aðila og ekki til heildstætt yfirlit yfir þá, né þá sölu sem fer fram á þeirra vegum, er erfitt fyrir Myndstef að hafa yfirlit endursölu myndverka.

„Við höfum ekki heildstætt yfirlit, en við fáum ábendingar frá öðrum í bransanum sem eru að standa sig vel og svo líka frá listamönnunum sjálfum sem frétta kannski úti í bæ af sölu verka sinna án þess að fylgiréttargjöld hafi verið greidd,“ segir Aðalheiður Dögg.

Hún segir Myndstef hvetja myndlistarfólk til að fylgjast með og láta vita frétti það af slíkri sölu.

Það er Myndstef, sem myndhöfundastjóður Íslands, sem á að bregðast við ef gjaldið er ekki greitt. Í raun hefur Myndstef hins vegar takmörkuð tækifæri til að gera nokkuð. „Það eina sem við getum í raun gert er að setja gjaldið í innheimtu,“ segir Aðalheiður Dögg. Hvorki sé heimild í núverandi lögum til að rukka vexti né sekta þá sem ekki greiði. „Hjá okkur snýr þetta aðallega að skorti á verkfærum.“

Myndstef hefur átt í samtali við bæði menntamála- og nýsköpunarráðuneyti um fylgiréttargjaldið og eins hefur sjóðurinn skilað inn greinargerð til ráðuneytanna þar sem lagðar eru til endurbætur. „Okkur skilst að það sé mögulega að fara af stað endurskoðun á lögum sem kunna að varða fylgiréttagjöld,“ segir Aðalheiður Dögg.

Hún segir að eitt af því sem Myndstef myndi vija sjá gerast sé að þeim sem stunda þessi viðskipti sé gert að hafa vottun eða skráningu.  „Þannig að ábyrgð sé sett á þá og hægt verði að fylgjast með þeim,“ útskýrir hún og nefnir fasteignasala sem dæmi. Ekki geti hver sem er stundað slík viðskipti.

Annað sem Myndstef og endursöluaðilar hafa gagnrýnt er að í núverandi reglugerð, sem er frá árinu 2001, eru fylgiréttargöldin reiknuð í prósentustigum upp að 3.000 evrum. Aðalheiður Dögg bendir á að það flæki málin að hafa hámarkið í evrum. „Þetta hafa sérstaklega þeir sem eru að stunda viðskiptin gagnrýnt,“ segir hún og kveður þörf á að fara í allsherjar endurskoðun á fylgiréttargjöldunum.

Tengdar fréttir

Myndlist

„Ég hef aldrei keypt mér verk til að græða á því“

Innlent

Mega birta milljónir mynda á netinu

Innlent

Stundin þarf að borga fyrir myndir af Arnþrúði

Menningarefni

Heiðarlegur listaverkasali