Þúsundir íbúa Khabarovsk krefjast enn afsagnar Pútíns

26.07.2020 - 07:33
People hold various posters supporting Khabarovsk region's governor Sergei Furgal, one of them reads "Putin, you have lost my trust," right, during an unsanctioned protest in support of Sergei Furgal, who was interrogated and ordered held in jail for two months, in Khabarovsk, 6,100 kilometers (3,800 miles) east of Moscow, Russia, Saturday, July 25, 2020. Many thousands marched across Khabarovsk to protest the arrest of the region's governor on murder charges, continuing a wave of protests that has lasted for two weeks. (AP Photo/Igor Volkov)
 Mynd: AP
Þúsundir borgarbúa fylktu liði rússnesku borginni Khabarovsk í gær og mótmæltu handtöku héraðsstjórans í samnefndu héraði syðst í Austur-Rússlandi og innsetningu arftaka hans, sem aldrei hefur búið í héraðinu. Fyrri héraðsstjóri, Sergei Furgal, nýtur mikilla vinsælda og tugir þúsunda borgarbúa mótmæltu þegar hann var var handtekinn og færður í gæsluvarðhald í Moskvu fyrr í þessum mánuði, sakaður um að hafa fyrirskipað morð á þremur kaupsýslumönnum fyrir fimmtán árum.

 

Óreyndur maður án tengsla við héraðið skipaður í stað Furgals

Í nýliðinni viku var Furgal settur formlega af sem héraðsstjóri og 39 ára flokksbróðir hans, Mikhail Degtyarev, skipaður í hans stað, við litla hrifningu heimamanna. Er Degtaryev sagður óreyndur og, það sem verra er, án nokkurra tengsla við Khabarovsk og kölluðu borgarbúar eftir afsögn hans hið snarasta. Þau köll hefur Degtaryev látið sem vind um eyru þjóta.

Frelsi fyrir Furgal, afsögn Pútíns!

Mótmælendur í gær voru litlu færri en í fyrstu mótmælunum, eða fimmtán til tuttugu þúsund, og kröfurnar voru þær sömu og fyrr: Frelsun Furgals og afsögn Vladimírs Pútíns, Rússlandsforseta.

„Við viljum að héraðsstjóranum verði sleppt, því við teljum afar líklegt að handtaka hans sé ólögmæt," hefur AFP-fréttastofan eftir hálfþrítugum mótmælanda, Alinu Slepovu. Hún fullyrðir að útsendarar Kremlar hafi látið handtaka Furgal „til að verja sína eigin hagsmuni, en ekki hagsmuni héraðsins."

Lögregla skipti sér ekki af

Lögregla í Khabarovsk lét mótmælendur óáreitta þrátt fyrir að kröfugangan væri skýlaust brot á gildandi samkomubanni vegna Kórónaveirufaraldursins. Í Moskvu handtók lögreglan hins vegar minnst tíu manns sem komu saman á Pusjkin-torgi til að sýna mótmælendum í Khabarovsk stuðning í verki, segir í frétt breska blaðsins Guardian.

 

Harðlínu þjóðernissinni sem fylgir þó Kremlín að málum

Flokkur Furgals, Frjálslyndi lýðræðisflokkur Rússlands, er flokkur harðlínu-þjóðernissinna, og er af stjórnmálaskýrendum talinn nokkuð hollur Kremlarstjórninni í flestum málum.

Sömu stjórnmálaskýrendur upplýsa BBC hins vegar um að sigur Furgals í héraðsstjórakosningunum fyrir tveimur árum - sem var mikill og ótvíræður - hafi verið talsvert áfall fyrir Pútín og Sameinað Rússland, og þótt benda til þess að tök Kremlar á austurhéruðunum væru að veikjast.

 

Telja pólitík að baki handtökunni

Furgal var handtekinn 9. júlí og fluttur til Moskvu þar sem hann bíður réttarhalda. Hann er ákærður fyrir að hafa fyrirskipað þrjú morð á árunum 2004 og 2005. Tvö þeirra voru framin, en hið þriðja fór út um þúfur.

Sarah Rainsford, fréttaritari BBC í Moskvu, segir fylgjendur Furgals, sem nýtur mikilla vinsælda heimafyrir, sannfærða um að ákæran og handtakan eigi sér pólitískar rætur. Þeir vilji vita hvers vegna stjórnvöld hafi beðið með handtaka hann þar til nú, segir Rainsford, 15 árum eftir meint brot hans.

 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi