Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Þrjú innanlandssmit greindust í gær - tugir í sóttkví

26.07.2020 - 11:07
Innlent · COVID-19 · Smit · smitrakning
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Rúnar Ingi Garðarsson - RÚV
Þrjú smit af COVID-19 greindust innanlands í gær og tvö við landamærin. Eitt innanlandssmitanna uppgötvaðist á íþróttamótinu ReyCup, hann er nú í einangrun og 16 manns, sem voru í nánu samneyti við viðkomandi, eru nú í 14 daga sóttkví. Við greiningu Íslenskrar erfðagreiningar kom í ljós ný tegund veiru sem ekki hefur greinst hér áður.

Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá Almannavarnardeild ríkislögreglustjóra. 

Þar segir að sá sem var á ReyCup hafi tekið þátt í félagsstarfi íþróttafélags í Reykjavík og að hluti íþróttaliðsins, sem tók þátt í mótinu, sé í sóttkví. Aðrir þeirra 16 sem fóru í sóttkví vegna þessa tengjast honum á annan hátt. Í tilkynningunni segir að uppruni smitsins sé ófundinn og smitrakning sé í gangi.

Jóhann K. Jóhannsson, upplýsingafulltrúi hjá ríkislögreglustjóra, segir í samtali við fréttastofu, að færri hafi þurft að fara í sóttkví vegna þessa smits en upphaflega var gert ráð fyrir.

Annað smit sem greindist í gær tengist smiti sem greint var frá í fyrradag. Íslensk erfðagreining hefur raðgreint smitin og kom í ljós ný tegund veiru sem hefur ekki greinst hér áður. Í því máli er smitrakningu lokið. Einn er í einangrun og 12 í sóttkví.

Beðið eftir niðurstöðu rannsókna

Þriðja smitið sem greindist er frá einstaklingi sem kom til landsins þann 15. júlí. Það greindist á suðvesturhorni landsins. Hann er kominn í einangrun og sex sem voru í samneyti við hann í sóttkví. Þeir fara jafnframt í sýnatöku en tveir eru farnir að sýna einkenni veirunnar Að þessu viðbættu greindust tvö smit við landamærin og beðið er eftir niðurstöðu frekari rannsókna á því hvort um virk eða gömul smit sé að ræða.

Í tilkynningunni brýna Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis fyrir fólki að gæta varúðar og huga vel að einstaklingsbundnum smitvörnum. Leiki minnsti vafi á hvort einkenni Covid-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð.