Stöðvuðu fíkniefnaframleiðslu og ökumann á 146 km hraða

Mynd með færslu
 Mynd: Birgir Þór Harðarson
Lögregla stöðvaði í gærkvöld framleiðslu fíkniefna í Árbænum í nótt og voru tveir menn handteknir vegna málsins og þeim sleppt að lokinni skýrslutöku. Hvorki kemur fram í tilkynningu lögreglu hverrar tegundar fíkniefnin voru né hversu umfangsmikil framleiðslan var. Tilkynnt var um slagsmál í miðborginni og voru fjórir menn handteknir og færðir á lögreglustöð vegna málsins. Þrír fengu að fara að lokinni skýrslutöku en sá fjórði var vistaður í fangaklefa.

 

Einnig var maður nokkur handtekinn í miðborginni eftir misheppnaða ránstilraun, þar sem hann ógnaði gangandi vegfaranda og reyndi að ná af honum peningum. Var maðurinn færður í fangaklefa fyrir vikið.

Mikið um hávaða og vímuakstur

Alls komu 22 hávaðamál inn á borð lögreglu í nótt og níu ökumenn voru stöðvaðir fyrir vímuakstur. Þá var ökumaður bifhjóls stöðvaður þegar hann ók hjóli sínu á 146 kílómetra hraða þar sem hámarkshraði er 60. Til að bæta gráu ofan á svart reyndist hann réttindalaus, þar sem hann hafði verið sviptur ökuréttindum fyrir fyrri brot. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi