Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Sendiherralaust í fimm ár frá árinu 2009

26.07.2020 - 16:40
Mynd með færslu
 Mynd: Freyr Arnarson - RÚV
Jeffrey Gunter Ross, bandaríski sendiherrann á Íslandi, er í kastljósi fjölmiðla eftir að CBS greindi frá því í morgun að hann vildi fá vopnaðan lífvörð þar sem hann óttaðist um líf sitt. Það hefur þó ekki gengið þrautarlaust fyrir forseta Bandaríkjanna að skipa sendiherra hér á landi

Frá því að Carol Van Voorst lét af embætti sendiherra Bandaríkjanna í apríllok 2009, hefur alls verið sendiherralaust á landinu í 62 mánuði, meira en fimm ár.

Van Voorst lét af embætti við sérkennilegar aðstæður, en Kastljós greindi frá því 2009 að hún hefði átt að fá Fálkaorðina. Á leið á kveðjufund með forseta Íslands fékk hún símtal frá forsetaskrifstofunni þess efnis að hún yrði ekki sæmd orðunni. Eftir að hún hvarf frá Íslandi kenndi hún alþjóðasamskipti við Army War College.

Sextán mánuðir liðu þar til eftirmaður Van Voorst kom til starfa, í september 2010. Það má að einhverju leyti rekja til þess að Robert S. Connan hafði verið skipaður sem sendiherra en hætti svo við. Við starfinu tók loks Loius Ariega hafði þá starfað í utanríkisþjónustunni um áratugaskeið. Hann lét svo af störfum haustið 2013 og tók við embætti sendiherra í Guatemala.

Þá tók við annað sendiherralaust tímabil. Robert Barber hlaut samþykki Bandaríkjaþings í janúar 2015 og kom til starfa skömmu síðar, en þá hafði enginn sendiherra verið á staðnum í 13 mánuði.

Barber var pólitískt skipaður en ekki diplómati, heldur hafði hann starfað sem lögmaður og stutt kosningasjóð Baracks Obama. Hann lét af störfum um leið og Donald Trump tók við forsetaembættinu, 20. janúar 2017, eins og venjan er með pólitískt skipaða sendiherra.

Stjórn Trump var óvenjulengi að skipa bæði sendiherra og hátt setta embættismenn í stjórnkerfinu í Washington. Því liðu tvö ár þar til Bandaríkjaþing boðaði Jeffrey Ross Gunter á sinn fund til að spyrja hann spjörunum úr og staðfesta að því loknu sem sendiherra á Íslandi.

Í vitnisburði sínum á þingi sagðist hann aldrei hafa komið til Íslands en oft til Vestur-Evrópu, en eiginkona hans, sem er látin, hefði verið af hollensku bergi brotin. 

Gunter er pólitískt skipaður, var áður húðlæknir í Kaliforníu og hefur verið áberandi í samtökum gyðinga í Repúblíkanaflokknum, Republican Jewish Coalition. Spilavítaeigendinn Sheldon Adelson stofnaði þau samtök en Adelson er ákafur stuðningsmaður Donalds Trump.

Gunter kom til starfa á Íslandi í maí 2019, en þá hafði enginn sendiherra verið á landinu frá því snemma árs 2017, í tvö ár og fjóra mánuði, sem er það lengsta sem dæmi eru um hérlendis.

Ástæðan er bæði hversu lengi stjórn Trumps var að tilnefna fólk í lykilembætti sem og að undanfarin ár hefur vinna Bandaríkjaþings dregist mjög á langinn, þar með talið að staðfesta sendiherra í embætti.

Frá 2009 hefur því samanlagt verið sendiherralaust á Íslandi í rúm fimm ár. Það hefur þó ekki komið í veg fyrir framkvæmdir á vegum sendiráðsins sem opnaði nýverið höfuðstöðvar við Engjateig. Framkvæmdirnar eru taldar hafa kostað um 6,5 milljarða en hnausþykkir öryggisveggir umlykja bygginguna og skothelt gler er í öllum gluggum.

Það virðist þó ekki hafa nægt til að fylla núverandi sendiherra öryggiskennd því hann er sagður óttast um líf sitt og hefur óskað eftir að fá vopnaðan lífvörð.

 

ingolfurbs's picture
Ingólfur Bjarni Sigfússon
Fréttastofa RÚV
freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV