Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Pólland segir sig frá sáttmála gegn kynbundnu ofbeldi

26.07.2020 - 01:52
epa08565330 Protesters dressed as characters from 'The Handmaid's Tale' take part in a demonstration against government's plans to terminate the Istambul Convention in front of headquaters of the Ordo Iuris Organization (an independent legal organization) in Warsaw, Poland, 24 July 2020 (issued 25 July 2020). Thousands of protesters went to the streets to protest against Polish government announcement to terminate the Council of Europe Istambul Convention on Action against violence against women and domestic violence.  EPA-EFE/RADEK PIETRUSZKA POLAND OUT
Konur í Varsjá brugðu sér í gervi hinna undirokuðu þerna úr sagnaheimi Margaret Atwood þegar þær mótmæltu áformum ríkisstjórnarinnar um að draga Pólland út úr sáttmála Evrópuráðsins gegn kynbundnu ofbeldi Mynd: EPA-EFE - PAP
Pólland hyggst segja sig frá sáttmála Evrópuráðsins, sem miðar að því að draga úr heimilisofbeldi og ofbeldi gegn konum. Dómsmálaráðherra Póllands tilkynnti þetta á laugardag. Ráðherrann, Zbigniew Ziobro, sagði sáttmálann, sem oftast er kenndur við Istanbúl, vera „skaðlegan" þar sem hann brjóti gegn réttindum foreldra með því að skikka skóla til að kenna börnum eitt og annað um málefni kynjanna, kynvitund og kynhneigð.

Ziobro sagði að ráðuneyti hans myndi fara fram á það við atvinnu- og fjölskylduráðuneytið strax á mánudag, að hefja undirbúning þess að draga Pólland út úr sáttmálanum.

„Hann inniheldur ákvæði sem litast af hugmyndafræði, sem við teljum skaðlega," sagði ráðherrann á fréttamannafundi, og bætti því við að pólitískar umbætur á síðustu árum tryggðu pólskum konum fullnægjandi vernd. Þúsundir mótmæltu þessari fyrirætlun stjórnvalda í Varsjá og víðar í Póllandi eftir að ráðherrann greindi frá henni, og voru konur þar í miklum meirihluta.

"Hefðbundin fjölskyldugildi" í hávegum

Stjórnarflokkurinn, íhaldsflokkurinn Lög og réttlæti, hefur mikil og náin tengsl við kaþólsku kirkjuna og ríkisstjórnin heldur því sem hún kallar hefðbundin fjölskyldugildi mjög á lofti. Sáttmálinn var gerður á vettvangi Evrópuráðsins og er ætlað að draga úr heimilsiofbeldi og ofbeldi gegn konum yfirleitt, en einnig er komið inn á málefni hinsegin fólks.  MJög var tekist á um réttindi þeirra í nýafstöðnum forsetakosningum í Póllandi, þar sem forsetinn, Andrzej Duda, hélt því fram að það væri ógn við pólsk gildi, ef hinsegin fólk fengi að gifta sig og ættleiða börn.

Pólverjar og Tyrkir efast um Istanbúlsáttmálann

Sáttmálinn var lagður fram í Istanbúl 11. maí 2011 og hafa hátt í 50 aðildarríki Evrópuráðsins undirritað hann frá þeim degi, auk þess sem Evrópusambandið hefur skuldbundið sig til að framfylgja honum.

Pólska ríkisstjórnin er ekki sú eina sem telur þennan sáttmála gegn kynbundnu ofbeldi til óþurftar því Tyrkir, sem þó voru þjóða fyrstir til að fullgilda sáttmálann, gáfu nýverið til kynna að þeir íhuguðu að segja sig frá honum.

Í sjónvarpsviðtali í júlíbyrjun sagði Numan Kurtulumus, varaformaður tyrkneska Réttlætis- og framfaraflokksins, að ýmislegt í sáttmálanum væri beinlínis rangt og að það væri einkum tvennt, sem tyrkneska stjórnin væri ósátt við; það sem lyti að kynvitund og kynhneigð. Þá sagði hann það einnig rangt, að kynbundið ofbeldi gegn konum myndi aukast við afnám Istanbúlsáttmálans, enda væri jafnrétti kynjanna grundvallaratriði í tyrkneskri löggjöf.