Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Fær ekki sekt fyrir 27 milljóna króna Bitcoin-uppskeru

26.07.2020 - 10:15
Mynd með færslu
 Mynd:
Yfirskattanefnd hefur hafnað kröfu skattrannsóknarstjóra sem krafðist sektar yfir manni fyrir að vanframtelja fjármagnstekjur sínar sem voru til komnar vegna sölu á rafmyntinni Bitcoin. Nefndin kemst að þeirri niðurstöðu að skattrannsóknarstjóri hefði ekki fært skýr rök fyrir af hverju nauðsynlegt væri að sekta manninn.

Í úrskurði nefndarinnar kemur fram að skattrannsóknarstjóri taldi manninn hafa staði skil á efnislega röngum skattframtölum vegna tekjuáranna 2016 og 2017.

Hann hefði vanframtalið fjármagnstekjur sínar sem væru til komnar vegna sölu af rafmyntinni Bitcoin upp á 27 milljónir, annað hvort viljandi eða af stórkostlegu hirðuleysi. Sekta bæri manninn fyrir háttsemi sína.

Maðurinn hafnaði því í bréfi til nefndarinnar. Hann gekkst þó við því að hafa árið 2016 selt rafmynt fyrir 27 milljónir. Hana hefði hann eignast með greftri á árunum 2009 og 2010 þegar slíkt hefði bæði verið auðvelt og ódyrt með venjulegri heimilistölvu. 

Þá benti hann á að þegar hann seldi rafmyntina hefði skattframkvæmd vegna slíkrar sölu verið verulega óljós og ófyrirsjáanleg. Tæpast hefði verið hægt að ætlast til þess að almennir borgarar gerðu sér grein fyrir slíkum ráðstöfunum á skattframtali.  

Hann hefði ekki ætlað að komast hjá því að greiða skatt af uppskerunni og hefði gert grein fyrir eign sinni á framtali sem innstæðu á gjaldeyrisreikningi. Hann hefði spurst fyrir hjá bæði kunnáttumönnum og ríkisskattstjóra um hvernig þessu væri háttað en án árangurs. Þá taldi hann að taka þyrfti tillit til þess að hann væri hvorki fæddur né uppalinn á Íslandi og hefði aðeins búið hér í nokkur ár þegar hann hóf að grafa eftir Bitcoin.

Hann hefði því verið í verri stöðu en aðrir til að kynna sér flóknar reglur sem skattyfirvöld hefðu ekki myndað sér skýra skoðun á. 

Maðurinn taldi því rétt að skattar hans fyrir þessi tvö tekjuár yrðu endurákvarðaðir og álagi beitt en að öðru leyti ekki gerð refsing.  Þá ítrekaði hann að hann ynni á Íslandi og hefði borgað skatta hér á landi frá árinu 2012. Hann hefði aldrei ætlað að koma sér undan skyldum sínum með ótilhlýðilegum hætti. Krafan um sekt væri úr öllu hófi og myndi steypa honum í skuldir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV