Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Ekki afturkallaðar fyrr en eftir atkvæðagreiðslu

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV - Kristinn Þeyr Magnússon
Enn liggur ekki fyrir hvort uppsagnir þeirra flugfreyja Icelandair, sem eiga að taka gildi um næstu mánaðamót, verða afturkallaðar. Rafrænni atkvæðagreiðslu um kjarasamning Flugfreyjufélags Íslands fyrir hönd flugfreyja hjá Icelandair lýkur á hádegi á morgun. Guðlaug Líney Jóhannsdóttir formaður félagsins segist fullviss um að Icelandair muni ekki taka ákvörðun um uppsagnirnar fyrr en niðurstaða atkvæðagreiðslunnar liggur fyrir.

„Þetta hangir klárlega saman,“ segir Guðlaug Líney. „Það hafa engar uppsagnir verið afturkallaðar, þetta verður að fara að liggja fyrir þannig að hægt verði að manna vélarnar. Svo er fólk auðvitað óþreyjufullt eftir að fá að vita hvort það verður með vinnu eftir mánaðamótin.“

Kosið er um samning sem undirritaður var fyrir viku, aðfaranótt 19. júlí. Gert er ráð fyrir að hann gildi til loka september 2025 og byggir á samningi sem flugfreyjur höfðu áður fellt í atkvæðagreiðslu. Þann 17. júlí samþykktu stjórn og trúnaðarráð Flugfreyjufélags Íslands að boða allherjarvinnustöðvun hjá Icelandair, samþykktu félagsmenn það í atkvæðagreiðslu. Til hennar kom aldrei, en þetta var ákveðið í kjölfar ákvörðunar Icelandair um að hætta viðræðum við Flugfreyjufélagið, segja upp öllum flugfreyjum sínum og leita eftir samningum við annað stéttarfélag. Þá áttu flugmenn félagsins að taka að sér störf örygggisliða um borð tímabundið.

Spurð hvernig hún telji að atkvæðagreiðslan muni fara segir Guðlaug Líney erfitt að segja til um það. „Fólk er í sárum eftir þessa aðför Icelandair, þegar öllum flugfreyjum félagsins var sagt upp og tilkynnt um að samið yrði við annað stéttarfélag. Nú kemur í ljós hvort það hafi áhrif,“ segir hún. 

940 flugfreyjur störfuðu hjá Icelandair í lok apríl en þá var 900 þeirra, um 95%, sagt upp. Uppsagnarfrestur þeirra er mislangur, hjá þeim sem stysta starfsævi hafa er hann þrír mánuðir og lýkur því um mánaðamótin júlí-ágúst. Í þeim hópi eru um 90% af flugfreyjum Icelandair. 

Hvað tekur við verði samningurinn ekki samþykktur? „Þá óskum við eftir áframhaldandi viðræðum við viðsemjendur okkar. Með þessum samningi erum við að mæta kröfum Icelandair. Verði honum hafnað er ljóst að flugfreyjum þykir hafa verið gengið of langt.“