Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

40% fórnarlamba COVID-19 voru með sykursýki 2

26.07.2020 - 09:26
epa08556699 A health worker takes a blood sample to perform a COVID-19 antibody test in Paris, France, 20 July 2020. Paris Mayor house organises free Covid test at Paris Plage (Paris beaches) area in an attempt to stop the widespread of the SARS-CoV-2 coronavirus causing the Covid-19 disease.  EPA-EFE/YOAN VALAT
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Devon Brumfield heyrði í gengum símann hversu erfitt faðir hennar átti með að ná andanum. Faðir hennar var með sykursýki og hún hvatti hann því til að leita læknisaðstoðar. Daginn eftir var hann látinn. Andlátið var rakið til skyndilegra öndunarerfiðleika vegna kórónuveirusýkingar

Sykursýki var tilgreint á dánarvottorðinu sem undirliggjandi vandi og er Brumfield, sem einnig er með sykursýki, dauðhrædd um að eins eigi eftir að fara fyrir sér.

Reuters fréttaveitan segir ótta Brumfield ekki ástæðulausan. Tölur nýrrar rannsóknar sem bandarísk yfirvöld hafa látið gera sýnir að tæp 40% þeirra sem eru látin voru með sykursýki 2 sem undirliggjandi sjúkdóm. Þegar hlutfall þeirra sem ekki höfðu náð 65 ára aldri er skoðað hækkar hlutfallið upp í helming. Rannsókn bandaríska sóttvarnareftirlitsins (CDC) tók til meira en 10.000 manns í 15 ríkjum sem létust úr kórónuveirunni á tímabilinu frá febrúar og fram í maí.

Jonathan Wortham, sérfræðingur í smitsjúkdómum hjá CDC, segir niðurstöðurnar vera sláandi, ekki hvað síst fyrir þá sem greinst hafa sykursýki 2 og ástvini þeirra.

Var faldur í hægum vexti

Reuters lét gera könnun og benda svörin frá þeim 12 ríkjum sem svöruðu til sambærilegra hlutfalla. 10 ríki, en þeirra á meðal eru Kalifornía, Arizona og Kólumbía, eru ekki enn vera farin að greina frá undirliggjandi sjúkdómum.

„Sykursýki var þegar faraldur í hægum vexti. Núna hefur COVID-19 brotist í gegn eins og kraftmikil alda,“ hefur Reuters eftir Elbert Huang, forstjóra Center for Chronic Disease Research and Policy við Chicagoháskóla.

Sykursýki er algengari meðal svartra og fólks af suður-amerískum uppruna, sem einnig hefur farið verr út úr kórónuveirunni.

Ein besta vörnin fyrir þá sem eru með sykursýki 2 er að halda sjúkdóminum í skefjum með líkamsrækt, hollu mataræði og aðstoð heilbrigðisstarfsfólks. Kórónuveirufaraldurinn hefur hins vegar gert mörgum erfitt um vik að halda rútínu.

Þá hefur hátt verð á insúlíni neytt suma til að halda áfram að mæta í vinnuna og hætta þar með á að vera útsettir fyrir veirunni.

Máttu vita af hættunni

Reuters bendir á að bandarísk yfirvöld hafi mátt vera meðvituð um hættuna sem þeir sem eru með sykursýki 2 gæti stafað af veirunni. Er SARS kórónuveiran gekk yfir árið 2003 voru rúmlega 20% þeirra með sjúkdóminn og í svínaflensufaraldrinum árið 2009 var þessi hópur í þrisvar sinnum meiri hættu á að þurfa að leggjast inn á sjúkrahús. Þegar MERS gerði svo vart við sig árið 2012 sýndi ein rannsókn fram á að 60% þeirra sem létust eða voru lagðir inn á gjörgæslu voru með sykursýki.

Charles S. Dela Cruz vísindamaður við Yale háskóla segir að vegna þess að áhrifa COVID-19 veirunnar gæti lengur þá hafi faraldurinn svipt hulunni af fjölda áður óþekkra fylgikvilla.

„Ég óttast að við munum sjá flóðbylgju vandamála þegar þessu er lokið,“ segir Andrew Bolton formaður alþjóða samtaka sykursjúkra.

Læknar hafa varað við að kórónuveirufaraldurinn kunni með óbeinum hætti að leiða til aukningar í fylgikvillum tengdum sykursýki, m.a. nýrnasjúkdómum og nýrnaskiljun. Eins beina nýjar rannsóknir til þess að kórónuveiran kunni að leiða til fjölgunar sykursýkitilfella.

Reuters segir vísindamenn vera að reyna að skilja tengslin milli kórónuveirunnar og sykursýki 2.

Veiran ræðst á hjarta, lungu og nýru, líffæri sem þegar eru veik fyrir hjá mörgum sem eru með sykursýki. Þá getur hátt hlutfall glúkósa og lípíðs hjá sykursjúkum framkallað sannkallaðan „frumuboðastorm“, eins og það er kallað þegar ónæmiskerfið bregst of hart við og ræðst á líkamann.

Skemmdar innþekjufrumur geta einnig leitt til bólgumyndunar sem aftur getur valdið banvænum blóðtappa.

„Þetta er allt eitt stórt púsluspil,“ segir Dela Cruz. „Þetta tengist allt innbyrðis.“

Fréttin hefur verið leiðrétt.