Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Til í að skoða að kosningaaldur miðist við fæðingarár

25.07.2020 - 18:24
Mynd með færslu
 Mynd: Kristinn Þeyr Magnúson - RÚV
Forsætisráðherra vonast til að ljúka vinnu við ný stjórnarskrárfrumvörp í september en 214 umsagnir bárust um frumvarp um stjórnarskrárbreytingar í samráðsgátt stjórnvalda. Hún á ekki von á að allir flokkar standi á bak við tillögur hennar.

Mikill meirihluti þeirra sem sendi inn umsögn gerði kröfu um að niðurstöður ráðgefandi þjóðaratkvæðagreiðslu um nýja stjórnarskrá sem efnt var til árið 2012 yrðu virtar. 

„Það hefur líka verið rætt töluvert um það hvort að það að setja hámarkstíma á setutíma forseta í tólf ár, hvort eðlilegra væri að hafa tímamörk en hafa þau rýmri,“ segir hún

Katrín segir að nú verði unnið úr þeim umsögnum sem bárust og reiknar hún með að ljúka vinnu við frumvörpin í september. Margar áhugaverðar umsagnir hafi borist.

„Ég tók til að mynda eftir umsögn sem barst um að réttast væri að miða við árið sem fólk verður átján ára en ekki afmælisdag þegar kemur að því að geta kosið . Sem mér fannst nú áhugaverð tillaga og ég er allavega reiðubúin að ræða í hópi formanna flokkanna,“ segir Katrín. 

Frumvörp lögð fram á haustþingi

Hún hyggst leggja fram frumvörp um breytingar á stjórnskipunarlögum á haustþingi og vonast til þess að um þau náist ágæt samstaða. 

 „Það hins vegar er ekki nokkuð sem ég endilega á von á, að það muni allir flokkar standa á bak við þessar tillögur,“ segir Katrín. „En það er mín sannfæring að mjög margt í þeim frumvörpum sem hafa verið kynnt, hvað varðar auðlindir, umhverfisvernd, íslenska tungu, og þessar breytingar sem lagðar eru til á embætti forseta og framkvæmdavaldinu, að margar af þessum tillögum séu mjög til bóta.  Og ég get bara neitt eitt dæmi, þarna er loksins verið að leggja til aukinn fjölda meðmælenda með frambjóðendum til forseta, nokkuð sem er búið að ræða mikið um en hefur ekki breyst lengi. Ég held að það verði mjög til bóta að breyta þessu,“ segir hún.

Gagnrýnt hefur verið að ekki sé í frumvörpunum að finna ákvæði um framsal valds til alþjóðastofnana. Katrín segir að töluvert skiptar skoðanir séu um hvernig slíkt ákvæði ætti að vera og það sé í raun sérstakt úrlausnarefni.