Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Þúsundir Ungverja mótmæltu aðför að fjölmiðlafrelsi

25.07.2020 - 06:48
epa08564676 Following the call of the oppositional Momentum party demonstrators march protesting against the dismissal of the editor-in-chief of the Hungarian news website Index.hu, in the streets of Budapest, Hungary, 24 July 2020. Editor-in-chief Szabolcs Dull has been dismissed by the chairman of board of the company owning the news website.  EPA-EFE/ZSOLT SZIGETVARY HUNGARY OUT
 Mynd: EPA-EFE - MTI
Þúsundir Ungverja komu saman í Búdapest í gærkvöld til að mótmæla aðför stjórnvalda að tjáningar- og fjölmiðlafrelsi í landinu. Mótmælendur gengu fylktu liði að skrifstofum Viktors Orbáns, forsætisráðherra, í höfuðborginni. Mikil reiði var í þeirra hópi vegna þess sem þeir kalla árás ríkisstjórnar Orbáns á frelsi fjölmiðla og frjálst aðgengi að upplýsingum.

Tilefnið var brottrekstur aðalritstjóra vefritsins Index, sem hefur verið mest lesni, óháði fréttamiðill landsins. Fyrr um daginn sögðu þrír aðstoðarritstjórar og rúmlega 80 blaðamenn vefritsins upp störfum  af sömu sökum. Er þetta nánast öll ritstjórn blaðsins. Saka blaðamennirnir stjórnvöld um að beita Index grímulausum þrýstingi, eftir að eigandi vefritsins neitaði að draga brottrekstur aðalritstjórans. Szabolc Dull, til baka.

Segja skósveina Orbáns kaupa óháða miðla og draga úr þeim tennurnar

Utanríkisráðherra Ungverjalands, Péter Szijjártó, vísaði ásökunum um afskipti stjórnvalda á bug á fréttamannafundi á fimmtudag. „Hvernig ættu stjórnvöld að grípa inn í ákvarðanir fjölmiðils í einkaeigu?" spurði ráðherrann.

Jú, svara stjórnarandstæðingar, með því að láta auðkýfing sem er afar handgenginn forsætisráðherranum Orbán kaupa ráðandi hlut í móðurfélagi vefritsins fyrr á þessu ári.

Mannréttindasamtökin Human Rights Watch benda á að þetta sé ekki fyrsti, óháði fjölmiðillinn sem auðugir skósveinar Orbáns kaupa og breyta svo í málgagn hans og ríkisstjórnarinnar. „Þetta er enn einn naglinn í kistu fjölmiðlafrelsis og óháðrar blaðamennsku í Ungverjalandi,“ sagði Lydia Gall, mannréttindalögfræðingur og sérfræðingur samtakanna í málefnum Austur-Evrópu og Balkanskaga.