Þrjú fórust er fisvél hrapaði á íbúðarhús

25.07.2020 - 22:49
epa08565820 Rescue forces in action after an ultralight aircraft crashed into a house in Wesel, Germany, 25 July 2020. According to media reports, a small plane crashed into an apartment building in Wesel. According to the fire department, three people were killed and a small child was injured.  EPA-EFE/SASCHA STEINBACH
 Mynd: EPA-EFE - EPA
Þrjú létu lífið þegar fisflugvél hrapaði á fjölbýlishús í bænum Wesel, um 50 kílómetra norður af Düsseldorf síðdegis í dag. Tveir menn sem voru um borð í vélinni dóu í slysinu og ung kona sem bjó í risíbúð hússins lét einnig lífið. Eldur kviknaði í risíbúðinni þegar vélin skall á henni og er hún sögð gjörónýt. Hins vegar tókst að bjarga tveggja ára barni konunnar áður en eldurinn náði að breiðast út að ráði, og mun það aðeins hafa hlotið minniháttar áverka.

Í frétt þýska blaðsins Der Spiegel kemur fram að vélin hafi að líkindum hrapað skömmu eftir flugtak frá Wesel-flugvelli. Vélin var tveggja manna fisvél af gerðinni TL96. Ekki er vitað hvað olli slysinu en haft er eftir lögreglu að ýmislegt bendi til þess að hún hafi brotnað áður en hún hrapaði, þar sem brak úr henni hafi fundist á allstóru svæði umhverfis húsið. 
 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi