Athugið þessi frétt er meira en 10 mánaða gömul.

Mesta fækkunin á Norðurlöndum var á Keflavíkurflugvelli

25.07.2020 - 17:34
Mynd með færslu
Það hefur verið fámennt í Leifsstöð undanfarna mánuði. Mynd: Bragi Valgeirsson - RÚV
Allt að rúmlega 96% samdráttur varð á fjölda farþega sem fóru um stærstu flugvelli Norðurlanda í júní miðað við sama mánuð í fyrra. Mestur var samdrátturinn á Keflavíkurflugvelli þar sem hann var 96,3%.

Þetta kemur fram á Túristi.is. Þar segir að hafa verði í huga þá sérstöðu Keflavíkurflugvallar að þar takmarkist flugumferð við millilandaflug, en yfirleitt geti farþegar tengt saman millilanda- og innanlandsflug á einum og sama flugvellinum.

Vantaa flugvöllur í Helsinki í Finnlandi er sá norrænu flugvallanna þar sem farþegafjöldi minnkaði næstmest, þar nam samdrátturinn 96%.

95% færri farþegar fóru um Arlanda flugvöll í Stokkhólmi í júní en í sama mánuði í fyrra og fækkunin á Kaupmannahafnarflugvelli var 94,9%.

Minnsti samdrátturinn var á Gardemoen flugvelli í Ósló, 86,2%. Í frétt Túrista segir að skýringin liggi að mestu í því að innanlandsflug í Noregi hafi ekki dregist jafn mikið saman og millilandaflugið.