
Kínversk vísindakona handtekin í Kaliforníu
Öll eru þau sökuð um að sigla undir fölsku flaggi vísindarannsókna við virta háskóla, þegar raunverulegt erindi þeirra sé að njósna fyrir kínverska kommúnistaflokkinn og kínverska herinn. Þrír voru handteknir í vikunni en Juan fannst ekki. Sökuðu bandarísk stjórnvöld ræðismann Kína í San Francisco um að leyna henni,eftirlýstum sakamanninum, í ræðisskrifstofunni. Í frétt AFP segir að óljóst sé hvar og hvernig handtöku hennar bar að.
Eitt dæmi af mörgum um vaxandi hörku
Handtaka fjórmenninganna er nýjasta dæmið af mörgum um vaxandi kulda og hörku í samskiptum Bandaríkjanna og Kína.
Donald Trump og stjórn hans hafa að undanförnu sakað Kínverja og kínversk stjórnvöld um aðskiljanlegustu misgerðir, svo sem njósnir, netárásir, yfirgang í Suður-Kínahafi, ólögmæt undirboð á markaði, ólögmæta hagræðingu á gengi kínverska júansins, óeðlileg og að líkindum ólögleg afskipti og tök á Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og framkvæmdastjóra hennar og, síðast en ekki síst, um að bera ábyrgð á tilurð og útbreiðslu kórónaveirunnar með einum eða öðrum hætti. Veiru, sem sett hefur heimsbyggðina á hliðina, lagt yfir 145.000 Bandaríkjamenn í gröfina og Trump kallar oftar en ekki Kínaveiruna.