Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Kínversk vísindakona handtekin í Kaliforníu

epa08563008 A security camera on top of the Chinese consulate as the Chinese flag flaps in the wind in San Francisco, California, USA, 23 July 2020. The FBI alleges that a biology researcher linked to the Chinese military is taking refuge in the Chinese consulate to avoid getting arrested for visa fraud.  EPA-EFE/JOHN G. MABANGLO
Kínverski fáninn blaktir við hún við víggirta ræðisskrifstofu stórveldisins í San Francisco Mynd: EPA-EFE - EPA
Kínversk vísindakona sem bandarísk yfirvöld sökuðu um að hafa logið til um tengsl sín við kínverska herinn þegar hún sótti um landvistarleyfi vestanhafs var handtekin og fangelsuð í Sacramento í Kaliforníu í gær. Bandaríska dómsmálaráðuneytið birti nýverið ákærur á hendur Juan Tang, 37 ára líffræðingi, og þremur kínverskum vísindamönnum öðrum fyrir að afla sér landvistarleyfis á fölskum forsendum.

Öll eru þau sökuð um að sigla undir fölsku flaggi vísindarannsókna við virta háskóla, þegar raunverulegt erindi þeirra sé að njósna fyrir kínverska kommúnistaflokkinn og kínverska herinn. Þrír voru handteknir í vikunni en Juan fannst ekki. Sökuðu bandarísk stjórnvöld ræðismann Kína í San Francisco um að leyna henni,eftirlýstum sakamanninum, í ræðisskrifstofunni. Í frétt AFP segir að óljóst sé hvar og hvernig handtöku hennar bar að.

Eitt dæmi af mörgum um vaxandi hörku

Handtaka fjórmenninganna er nýjasta dæmið af mörgum um vaxandi kulda og hörku í samskiptum Bandaríkjanna og Kína.

Donald Trump og stjórn hans hafa að undanförnu sakað Kínverja og kínversk stjórnvöld um aðskiljanlegustu misgerðir, svo sem njósnir, netárásir, yfirgang í Suður-Kínahafi, ólögmæt undirboð á markaði, ólögmæta hagræðingu á gengi kínverska júansins, óeðlileg og að líkindum ólögleg afskipti og tök á Alþjóðaheilbrigðisstofnuninni og framkvæmdastjóra hennar og, síðast en ekki síst, um að bera ábyrgð á tilurð og útbreiðslu kórónaveirunnar  með einum eða öðrum hætti. Veiru, sem sett hefur heimsbyggðina á hliðina, lagt yfir 145.000 Bandaríkjamenn í gröfina og Trump kallar oftar en ekki Kínaveiruna. 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV