„Grunaður njósnari“ gæti orðið vinur mjaldrasystra

25.07.2020 - 19:19
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Þær Litla-grá og Litla-hvít, mjaldrarnir í Vestmannaeyjum, gætu innan tíðar fengið félagsskap í kvínna í Klettsvík. Einmana en þó afar vinalegur mjaldur leitar að félagsskap með framtíðarsamband í huga.

Mjaldrarnir þær Litla-grá og Litla-hvít komu til Íslands í júní í fyrra. Upphaflega var ráðgert að þær yrðu í um fjörutíu daga í einangrun í sérsmíðaðri laug í Vestmannaeyjum og síðan fluttar á afgirtan griðastað í Klettsvík. Það hefur hins vegar orðið bið á þeim flutningi, nú síðast vegna þess að magakveisa herjaði á hvalina tvo.

„Litlu-grá og Litlu-hvít gengur nú mjög vel. Þær hafa lokið læknismeðferð vegna vægrar magasýkingar. Teymið okkar vinnur að því að undirbúa þær fyrir væntanlegan flutning til Klettsvíkur,“ segir Audrey Padgett, umsjónarmaður mjaldranna. 

Ekki er annað að sjá en mjaldrarnir hafi náð fullri heilsu - búnar að sporðrenna þremur skömmtum af loðnu og síld fyrir hádegi. Litla-grá og Litla-hvít hafa fengið að kynnast börum og lyftu sem notaðar verða við flutninginn í Klettsvík en ekki fæst uppgefið hvenær hann verður.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

„Við höfum sagt við gestina að helgin 1. og 2. ágúst verði síðasta helgin sem við getum tryggt að þeir sjái mjaldrana í gegnum gluggann í heimsóknarsetrinu,“ segir Audrey.

Vonir standi til að unnt verði að flytja mjaldrana fljótlega eftir það.  Þær þurfa að fá að aðlagast nýjum heimkynnum en síðan stendur fólki til boða að sjá þær.

„Við erum að vinna með Ribbátafyrirtæki hér í Vestmannaeyjum að því að bjóða upp á ferðir í Klettsvík. Þar verður einn af okkar starfsmönnum leiðsögumaður. Þannig getur fólk séð mjaldrana úr fjarlægð og þannig verið áfram hluti af þessu verkefni sem er að bjóða mjöldrunum griðarstað,“ segir Audrey.

Ekki standi til að bjóða fólki að synda með hvölunum. Mjaldrarnir hafa þrjátíu og tvö þúsund fermetra svæði til umráða. Ekki þykir ráðlegt að sleppa þeim alveg lausum. 

„Þær eru tólf ára gamlar og hafa verið í umsjá manna í ellefu ár. við erum ekki viss um að þær geti séð um sig sjálfar og við erum ábyrg fyrir þeim,“ segir Audrey.

Hvað með kærasta?

„við viljum að aðrir mjaldrar komi til athvarfsins. Við höfum pláss fyrir allt að tíu mjaldra eða átta til viðbótar. við erum ekki með áætlanir um undaneldi mjaldra eins og er svo að kvendýr væru tryggari kostur þar. En það eru aðferðir til að hafa stjórn á því. Við höfum rætt við fólkið sem fylgist með mjaldrinum í Noregi, honum Hvaldimír, því hann meiddist. Það hafði samband við okkur en við sögðumst fyrst þurfa að flytja Litlu-grá og Litlu-hvít en ef við gætum orðið þeim að liði væri það sjálfsagt,“ segir Audrey.

 

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Hvaldimír er enginn venjulegur mjaldur. Hann hefur vakið heimsathygli og lá um tíma undir grun um að vera rússneskur njósnari því hann sótti í samskipti við sjómenn og aðra sjófarendur úti fyrir ströndum Noregs. Þessi mannblendni Hvaldimírs hefur þó verið honum skeinuhætt því hann slasaðist illa í sumar þegar hann varð fyrir fiskveiðibáti. 

Tvær manneskjur fylgdu mjöldrunum þegar þær voru fluttar hingað til lands frá Kína. Þetta fólk er nú á heimleið og því hafa stöður þeirra verið auglýstar. Annars vegar starf aðstoðarmanns dýrahirðis og hins vegar dýraþjálfari.

„Við viljum gjarnan að þetta verði Íslendingar ef það er mögulegt því að þetta fólk mun halda áfram að vera hluti af þessu verkefni,“ segir Audrey.

 

kristins's picture
Kristín Sigurðardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi