Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Vinnuskólinn rúmum 200 milljónum dýrari en áætlað var

24.07.2020 - 15:03
Mynd með færslu
 Mynd: Reykjavik.is - Reykjavíkurborg
Talsvert meiri aðsókn var í Vinnuskóla Reykjavíkur í sumar en búist hafði verið við, starfstími ungmennanna var lengdur og fjölga þurfti starfsfóki Vinnuskólans. Kostnaðurinn jókst talsvert vegna þessa.

Þetta kom fram á fundi borgarráðs Reykjavíkur í gær þar sem ræddir voru viðaukar við fjárhagsáætlun borgarinnar vegna aðgerða vegna COVID-19.

Í fundargerð segir að skráðir nemendur í Vinnuskólanum hafi verið 935 fleiri en áætlanir gerðu ráð fyrir. Þessi fjölgun kostar borgina 110 milljónir. Starfstími 10. bekkinga var lengdur úr þremur vikum í fjórar, það kostar um 32 milljónir og vegna þessarar fjölgunar nemenda þurfti fleira starfsfólk. Það kostar borgina 57,5 milljónir.

Þá jókst ýmiss rekstrarkostnaður eins og til dæmis námskeiðskostnaður, vinnu- og öryggisfatnaður og kaup á verkfærum, spritti og hreinsivörum. Áætlað er að hann fari um átta milljónum fram úr áætlun.

Samtals nemur þessi kostnaður 207,5 milljónum króna, samkvæmt fundargerð borgarráðs. 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir