Tvö innanlandssmit - annar keppti á frjálsíþróttamóti

Mynd með færslu
 Mynd: Landspítali

Tvö innanlandssmit - annar keppti á frjálsíþróttamóti

24.07.2020 - 10:07
Tvö innanlandssmit greindust í gær, þau fyrstu síðan í byrjun júlí. Báðir einstaklingarnir eru komnir í einangrun. Í öðru málinu hafa á þriðja tug verið settir í sóttkví en þar hafði viðkomandi tekið þátt í frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði um síðustu helgi. Þeir sem sóttu umrætt íþróttamót eru beðnir um að gæta varúðar og huga að einstaklingsbundnum smitvörnum.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá landlæknisembættinu.  Um síðustu helgi fór fram Meistaramót Íslands fyrir aldurshópinn 15 til 22 ára í Kaplakrika. 205 keppendur frá 19 íþróttafélögum voru skráðir til leiks ásamt gestakeppendum frá Færeyjum.

Í tilkynningunni segir enn fremur að Frjálsíþróttasamband Íslands sé meðvitað um stöðuna og vinni að því að gera viðeigandi ráðstafanir en smitrakningu sé ekki lokið. 

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, sagði í samtali við fréttastofu að eftir því sem hann best vissi hefði viðkomandi keppt í einhverjum greinum á mótinu, og að ekki væri vitað um uppruna smitsins. Búið væri að setja einhverja keppendur á mótinu í sóttkví. Stórt frjálsíþróttamót er fyrirhugað á Akureyri um helgina, eða Meistaramót Íslands utanhúss. Freyr segir að mótið verði haldið að höfðu samráði við Almannavarnir.

„Almannavarnadeild ríkislögreglustjóra og embætti landlæknis biðja fólk sem sótti umrætt frjálsíþróttamót að gæta varúðar og huga að einstaklingsbundnum smitvörnum. Leiki minnsti vafi á hvort einkenni Covid-19 veirunnar séu til staðar er sá hinn sami beðinn um að fara í sýnatöku á næstu heilsugæslustöð,“ segir í tilkynningunni. 

Í hinu málinu hafa nokkrir verið settir í 14 daga sóttkví en þessi tvö smit eru ekki talin tengjast.

Síðasti upplýsingafundurinn í bili vegna COVID-19 faraldursins var í gær en þá hafði ekkert innanlandssmit greinst frá 2. júlí eftir að 11 greindust með kórónuveiruna í tveimur hópsýkingum.  Önnur þeirra kom upp hjá úrvalsdeildarliði í úrvalsdeild kvenna í knattspyrnu.