
Tjáir sig ekki um starfsmannamál Suðurnesjalögreglunnar
Áslaug Arna sagði í samtali við fréttastofu að á meðan þessi mál væru enn til meðferðar í ráðuneytinu myndi hún að öðru leyti ekki tjá sig um þau opinberlega.
Eins og fram kom í fréttum RÚV í gær hefur dómsmálaráðherra samkvæmt heimildum fréttastofu lagt til við Ólaf Helga Kjartansson lögreglustjóra á Suðurnesjum að hann hætti störfum sem lögreglustjóri. Við því hefur hann ekki orðið. Mikil ólga ríkir innan embættisins og hafa tveir starfsmenn kvartað undan framgöngu lögreglustjórans og aðrir tveir hafa kvartað til fagráðs lögreglu undan einelti af hálfu tveggja yfirmanna embættisins.
Annar þeirra yfirmanna sem kvartað hefur verið undan er Alda Hrönn Jóhannsdóttir yfirlögfræðingur og hinn er mannauðsstjóri embættisins. Í gær sendu þau frá sér yfirlýsingu þar sem þau vísuðu á bug þeim ávirðingum sem hafa verið bornar á þau, en þau hafa meðal annars verið sögð grafa undan Ólafi Helga.