Athugið þessi frétt er meira en 1 ára gömul.

Þrastarungar hertóku baðherbergi í Vesturbænum

24.07.2020 - 21:01
Innlent · Dýr · Dýralíf · Fuglar · Þrestir
Mynd: Pálína S. Sigurðardóttir / Aðsend
Þrastarungar halda til í góðu yfirlæti á baðherbergi í vesturbæ Reykjavíkur, en þangað var þeim bjargað undan köttum sem biðu færis þegar þeir duttu úr hreiðrunum. Húsráðendur hafa takmörkuð not af baðherbergi sínu vegna unganna, en láta sér það í léttu rúmi liggja. Ungarnir voru fjórir þar til í morgun þegar einn þeirra náði tökum á fluglistinni og lét sig hverfa út um gluggann.

Pálína S. Sigurðardóttir og René Biasone hafa fylgst með hverjum þrastarunganum á fætur öðrum verða köttum að bráð í garði sínum við Víðimel, þar sem þrastapar hefur búið sér hreiður. „Þegar ungarnir detta úr hreiðrinu gefa foreldrarnir frá sér sérstök hljóð, eins og garg. Við erum farin að þekkja þessi hljóð og þegar við heyrðum þau í enn eitt skiptið síðasta sunnudag fór ég út í garð,“ segir Pálína.

Hún sá þar ófleygan unga, sem hafði dottið úr hreiðrinu, hlaupa undan ketti. „Unginn komst inn í runna, kötturinn fór á eftir og þá náði ég unganum,“ segir hún. „Ég veit að ungar eiga að vera hjá foreldrum sínum, matast af þeim og læra af þem, en gat bara ekki horft á þetta lengur.“

Þeir borða kattamat, sólkjarnafræ og rúsínur

Þau bjuggu um ungann á baðherbergi sínu og leituðu sér upplýsinga um hvernig hægt væri að mata hann. Hann borðaði kattamat með bestu lyst, sömuleiðis sólkjarnafræ og rúsínur sem þau bleyttu upp. 

Pálína og René fylgdust grannt með gangi mála í garði sínum næstu daga og reyndu að fylgjast með ungunum allan sólarhringinn. René var einmitt á „unganæturvaktinni“, eins og Pálína orðar það, þegar þrastaparið fór aftur að gefa frá sér þessi hljóð. Þá fór René út í garð. „Það var um nótt og þá hafði einn ungi dottið úr hreiðrinu. Hann var settur inn á baðherbergi hjá hinum unganum og sömu nóttina bættust tveir í viðbót við.“

Þau mötuðu ungana með sprautu og þeir voru, að sögn Pálínu, býsna lystugir. „Þeir görguðu svo hátt að mamman fann þá. Hún var smástund að finna út hvernig hún kæmist inn um gluggann, en núna fer hún út og inn mörgum sinnum á dag með orma og annað í gogginum.“

Henda niður dóti og fara um allt

Pálína segir að ungarnir haldi mest til í glugganum, því að þannig virðist þeir ná bestu sambandi við mömmu sína. „En þegar það er ekki matartími, þá eru þeir að æfa sig að fljúga, þeir henda niður dóti og fara um allt baðherbergið. Það er mjög gaman að fylgjast með þeim.“

Flugæfingarnar báru árangur, því að einn unganna yfirgaf baðherbergið í morgun og flaug á vit ævintýranna. Nú eru eftir þrír. Spurð hvort ungarnir hafi ekki sett mark sitt á herbergið segir Pálína svo vera. „Það er ekki hægt að neita því. Það þarf að þrífa rækilega þarna þegar þeir verða allir farnir. Við höfum eiginlega ekkert getað notað baðherbergið, við höfum fengið að fara í sturtu hjá nágranna okkar og svo höfum við líka bara farið í sund. En þeir fá að hafa baðherbergið á meðan þeir þurfa á því að halda.“

 

 

 

 

 

 

 

 

 

annalth's picture
Anna Lilja Þórisdóttir