„Það breytist allt með aldrinum“

Mynd: Brynja Nordquist / Aðsend

„Það breytist allt með aldrinum“

24.07.2020 - 12:47

Höfundar

„Það var ekkert sem kom upp. Ég tók þessa ákvörðun, ég hafði ekki áhuga á að vera lengur fulla frænkan“ segir Brynja Nordquist um að hafa hætt að drekka fyrir fimm árum.

„Maður breytist með víni og þegar þú ert komin á vissan aldur þá breytist allt. Þú verður öðruvísi,“ segir Brynja sem var gestur Viktoríu Hermannsdóttur í þættinum Segðu mér á Rás 1. Brynja á að baki fjölbreyttan feril og var um áraraðir ein þekktasta fyrirsæta landsins og flugfreyja. Í þættinum ræddi hún ferilinn, hvernig var að hætta að vinna og hvernig var að hætta að drekka. 

Var það erfitt? „Nei,“ segir hún ákveðin en bætir við: „Auðvitað hafa komið stundir þar sem mig langar í og hugsa: oooh hvað væri gott að fá sér einn en svo langar mann ekki að skemma þetta. Mann langar ekki að skemma það sem maður er búin að byggja upp í sér,“ segir Brynja. „Mér líður bara betur svona. Ég fæ ekki þennan kvíða. Ég fékk oft kvíða eftir eitthvað helgarstuð eða eitthvað þess háttar og hugsaði: Ég nenni ekki að gera þetta núna, geri þetta bara á morgun þegar þreytan er farin úr manni og eitthvað,“ segir Brynja sem finnur mun á líðan sinni eftir að hún hætti að neyta áfengis. „Mér bara líður miklu betur. Mér finnst þetta bara miklu skemmtilegra, ég man allt. En ég er nú reyndar orðin svolítið gleymin en þá hefði vínið ekkert verið betra. Ég er mjög þakklát fyrir að hafa tekið þessa ákvörðun,“ segir hún. 

Brynja starfaði sem áður segir um árabil bæði sem fyrirsæta og flugfreyja. Hún segir margt hafa breyst, bæði í fyrirsætuheiminum og fluginu. Bæði störfin veittu henni tækifæri til þess að fara á fjölmarga staði víða um heim. Meðal annars ferðaðist hún um ásamt fleiri fyrirsætum með Vigdísi Finnbogadóttur sem þá var forseti, til þess að sýna ullarvörur. „Ég fór í einar sjö eða átta ferðir,“ segir hún. „Það var mjög gaman.“ Þetta vakti mikla athygli.

„Unnur Arngríms, sem var gift Hermanni Ragnars, var með Módelskólann og vildi fá mig til að koma og sýna. Ég gerði það í nokkur skipti ásamt nokkrum vinkonum mínum. Síðan ákváðum við að draga okkur út úr Módelsamtökunum og stofnuðum Módel 79,“ segir Brynja. Á þessum árum var nóg að gera í fyrirsætubransanum og varla haldin skemmtun án þess að þar færi fram tískusýning. „Það var ekki ball, hvorki í Hollywood né Broadway, nema það væri haldin tískusýning.“  

Hún ferðaðist mikið í fyrirsætustörfunum en líka í starfi sínu sem flugfreyja. „Starfið gaf mér fullt, ég fékk að njóta þess að fara til fjölda landa og hitta alls konar fólk,“ segir Brynja um flugfreyjustarfið en segist þó ekki viss um að hún vildi sinna starfinu í dag í ljósi aðstæðna. Hún hætti fyrir tveimur árum. 

Hægt er að hlusta á viðtalið við Brynju í heild sinni hér og í öllum helstu hlaðvarpsveitum. 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Þráði alltaf að eignast fjölskyldu

Menningarefni

Fann ástina aftur eftir erfiðan skilnað

Heilbrigðismál

„Ég er hamingjusamur, glaður og frjáls“