Athugið þessi frétt er meira en 11 mánaða gömul.

Segir breytingar á námslánum þær mestu í áratugi

24.07.2020 - 17:45
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Menntamálaráðherra segir breytingar sem gerðar hafa verið á lánum til námsmanna þær mestu í áratugi. Vegna COVID verður frítekjumark þeirra sem snúa aftur til náms eftir fjarveru fimmfaldað. Menntamálaráðherra boðar aukin framlög til menntamála.

Auglýsing um úthlutunarreglur hins nýja Menntasjóðs námsmanna var birt  í dag. Þar kemur fram að frítekjumark námsmanns er 1.364 þúsund krónur á árinu, en vegna aðstæðna í þjóðfélaginu út af COVID er heimilt að fimmfalda þau mörk hjá námsmönnum sem voru á vinnumarkaði og hafa ekki verið við nám undanfarna sex mánuði. Lilja Alfreðsdóttir menntamálaráðherra segir hækkað frítekjumark bara gilda fyrir þetta ár.

„Hún er núna fyrir þetta ár en auðvitað er það svo, eins og við þekkjum, að það er mjög mikið að gerast bæði í alþjóðahagkerfinu og hér, að við þurfum að taka mið af því og það hefur ríkisstjórnin verið að gera og þess vegna munum við sjá aukningar er varða framlög til menntamála og þetta er eitt af því.“
Áttu von á að svona margföldun  verði endurtekin?
„Við eigum alltaf að skoða stöðuna og við getum auðvitað ekki sagt til um það á þessum tíma. Við vorum að klára þessar úthlutunarreglur og erum búin að vera að klára þessi lög líka, sem ég er auðvitað gríðarlega ánægð með og stolt að við höfum komið í gegn. Þetta eru umfangsmestu breytingar sem hafa átt sér stað í tugi ára.“

Að sögn Lilju mun hækkun frítekjumarks kosta um 400 milljónir króna ef það verður nýtt að fullu. Námsmenn hafa kallað eftir að framfærslan sem slík verði hækkuð. Lilja hrósaði stúdentahreyfingunni fyrir þátttöku í þessari vinnu.

„Við höfum meðal annars hækkað framfærslugrunninn 2018 og við erum auðvitað alltaf með þetta í stöðugri endurskoðun og auðvitað viljum hafa umhverfi þeirra eins traust og gott og við mögulega getum.“

Önnur breyting sem tekið hefur gildi er að sjálfskuldarábyrgð er á námslánum og ábyrgðar aðeins krafist ef lántaki telst ekki lánshæfur.

 

 

holm's picture
Haukur Holm
Fréttastofa RÚV