Rússar hefja millilandaflug á ný

24.07.2020 - 17:48
Mynd með færslu
 Mynd: CC0 - Pixabay
Rússar ætla að hefja millilandaflug að nýju um næstu mánaðamót, eftir þriggja mánaða hlé vegna COVID-19 farsóttarinnar. Fyrst í stað verður einungis flogið til þriggja landa.

Mikhail Mishustin forsætisráðherra tilkynnti við upphaf ríkisstjórnarfundar í dag að millilandaflug hæfist 1. ágúst. Það hefur legið niðri frá því í mars þegar gripið var til víðtækra ráðstafana til að draga úr kórónuveirusmitum.

Fyrst í stað verður einungis flogið frá flugvöllum í Moskvu, Sankti Pétursborg og Rostov í suðurhluta landsins. Áfangastaðirnir verða fáir til að byrja með; Lundúnir, Ankara og Istanbúl í Tyrklandi og eyjan Sansibar í Tansaníu. Tíu dögum síðar bætast við þrír áfangastaðir í Tyrklandi, þangað sem rússneskt ferðafólk leggur leið sína gjarnan yfir sumarið.

Yevgeny Ditrikj samgönguráðherra segir að unnið sé að því í ráðuneytinu að hefja millilandaflug til þrjátíu landa í viðbót á næstunni.

Útlendingum verður einnig heimilað að koma til Rússlands að því tilskildu að þeir framvísi innan við þriggja sólarhringa gömlu vottorði um að þeir séu ekki smitaðir af COVID-19.

Einungis þrjár þjóðir hafa farið verr út úr farsóttinni en Rússar. Þar hafa rúmlega átta hundruð þúsund veirusmit greinst og rétt yfir þrettán þúsund sjúklingar látist af völdum COVID-19 samkvæmt opinberum tölum sem birtar voru í dag.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi