Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Ráðherra fái tæki til að reka óhæfa embættismenn

Mynd með færslu
 Mynd: Skjáskot - RÚV
Páll Magnússon, formaður allsherjarnefndar Alþingis segir augljóst að dómsmálaráðherra verði að hafa tæki til að geta losað sig við óhæfa embættismenn innan lögreglunnar. Staðan innan lögreglunnar á Suðurnesjum sé algerlega óboðleg.

Mikil ólga ríkir innan embættisins og hafa tveir starfsmenn kvartað undan framgöngu lögreglustjórans, Ólafs Helga Kjartanssonar, og aðrir tveir undan einelti af hálfu tveggja yfirmanna embættisins. Dómsmálaráðherra hefur samkvæmt heimildum fréttastofu lagt til við Ólaf Helga að hann hætti störfum sem lögreglustjóri. Við því hefur hann ekki orðið.

Páll Magnússon, þingmaður Sjálfstæðisflokksins og formaður allsherjarnefndar Alþingis, deilir frétt um málið á Facebook-síðu sinni í dag og segir að það hljóti að koma til athugunar og endurskoðunar með hvaða hætti ráðið er í æðstu stöður innan lögreglunnar - og hvaða kröfur séu gerðar til þeirra einstaklinga sem veljast í þær stöður.

„Mér finnst þessi staða algerlega óboðleg,“ segir Páll í samtali við fréttastofu. „Og án þess að ég sé að taka efnislega afstöðu í deilunni, þá er þetta algerlega óviðunandi að æðstu yfirmenn innan lögreglunnar geti ekki leyst innbyrðis ágreiningsefni með einhverjum öðrum hætti en þessum.“

Nefndin kunni að eiga frumkvæði

Páll segir að eftir sífelldar illdeilur innan lögreglunnar, bæði á Suðurnesjum og áður innan embættis Ríkislögreglustjóra, hafi hann velt því fyrir sér hvort ekki þurfi að búa til aðra mælikvarða á það hvaða fólk sé til þess hæft að gegna þessum störfum. Það þyrfti að minnsta kosti að hafa einhverja grunnfærni í mannlegum samskiptum.

„Og mér finnst líka algerlega augljóst að ráðherra verður að hafa í hendi sér á hverjum tíma einhver tæki og tól til að losa sig við óhæfa embættismenn. Ekki síst í yfirstjórn lögreglunnar þar sem traustið er svona mikilvægt.“

Páll er formaður allsherjarnefndar sem fer með dómsmál og málefni lögreglunnar innan Alþingis.

„Ég held að ef það kemur í ljós í þessum málum eins og stundum áður að ráðherra hafi ekki tækin sem þarf til að grípa inn í ágreining af þessu tagi, þá þarf að útvega honum þau tæki. Og það er þá eðlilegast að ráðherra hafi frumkvæði að því sjálfur, og það komi svo til kasta allsherjar- og menntamálanefndar, og svo er ekkert óhugsandi að nefndin hafi frumkvæði að því sjálf, ef henni finnst að haga eigi þessum málum með einhverjum öðrum hætt, en þetta er óboðlegt, eins og þetta hefur verið síðastliðin ár,“ segir Páll Magnússon.