
„Það er enginn sem getur tekið ábyrgð á hópi fólks sem fer upp á Heklu. Menn geta tekið þessa ákvörðun fyrir sjálfa sig en ég tel það algjörlega óábyrgt að fara með annað fólk upp og sérstaklega að láta það greiða fyrir nema öllum sé ljóst hver áhættan er,“ segir hann.
Viðvörunarskilti hafa verið við Heklurætur undanfarin ár þar sem göngufólk er varað er við þeirri hættu sem getur skapast ef gos hefst. Páll segist telja að skiltin hafi gert sitt gagn. Hann segir mikla áhættu felast í því að ganga fjallið því Hekla getur gosið nánast án fyrirvara. Þá séu Heklugos oft kröftugust í fyrstu, sem er sérlega hættulegt fyrir þá sem staddir eru á fjallinu.
„Í tilfelli Heklu getur [fyrirvarinn] verið hættulega stuttur. Þannig að það er ekki hægt að tryggja að fólk sem er í göngu á fjallinu fái viðvörun. Að vera á Heklu þegar gos byrjar, það er ekki gæfulegt,“ segir Páll. Þessar viðvaranir eiga ekki við um aðrar eldstöðvar, líkt og Kötlu, Bárðarbungu eða Grímsvötn enda eru þær fyrirsjáanlegri en Hekla.
Aðferðir til að spá nákvæmlega um gos ekki til
Hekla er afar virk eldstöð. Hún gaus á um það bil tíu ára fresti frá árunum 1970 til 2000. Páll segir að ekki séu til aðferðir til þess að spá nákvæmlega fyrir um hvenær eldfjöll gjósi. Sumar eldstöðvar hér á landi gera boð á undan sér en það gerir Hekla yfirleitt ekki.

Aðspurður hvort hár þrýstingur undir kviku Heklu geri það að verkum að næsta gos verði stærra en ella svarar Páll að svo þurfi ekki að vera. „Það er ekki alveg víst að það haldi endilega. En hins vegar hafa undanfarin Heklugos verið kröftug og þau hafa alltaf byrjað með dálítið miklum látum. Hún byrjar mjög ákaft og byrjar með skömmum fyrirvara. Þetta gerir hana sérstaklega hættulega,“ segir Páll.