Kvikmynd Clooney fékk 313 milljónir úr ríkissjóði

epa07910269 George Clooney, Oscar winning actor and filmaker, businessman and human rights activist, speaks at the Nordic Business Forum in Helsinki, Finland, 10 October 2019.  EPA-EFE/KIMMO BRANDT
 Mynd: EPA - RÚV

Kvikmynd Clooney fékk 313 milljónir úr ríkissjóði

24.07.2020 - 09:44

Höfundar

Kvikmyndin The Midnight Sky, sem er leikstýrt af George Clooney og framleidd fyrir streymisveituna Netflix, fékk 313 milljónir endurgreiddar úr ríkissjóði. Þetta er hæsta endurgreiðslan það sem af er þessu ári. Clooney leikur aðalhlutverkið í myndinni ásamt Felicity Jones. The Tomorrow War með Chris Pratt fékk 205 milljónir og sjónvarpsþættirnir Foundation fengu 164 milljónir en þeir eru gerðir fyrir streymisveitu Apple.

Þetta kemur fram í uppfærðum lista á vef Kvikmyndamiðstöðvar.

Kvikmynd Clooneys nefnist Aether sem er nafnið á geimskipinu í myndinni.  Clooney leikur vísindamann sem er staddur á heimskautasvæðinu og reynir að ná sambandi við geimfara í geimskipinu eftir heimsendi. 

Tökur fóru fram í nágrenni Hafnar í Hornafirði og var meðal annars leitað að fjölskyldum með börn og unglinga til að leika í myndinni.  Þórdís Kolbrún Reykfjörð Gylfadóttir, iðnaðarráðherra, heimsótti tökustaðinn og ræddi við stórstjörnuna. „Hann var bara venjulegur og almennilegur,“ sagði ráðherrann á Twitter-síðu sinni.

Miðað við 25 prósent endurgreiðslu nam framleiðslukostnaður myndarinnar hér á landi um 1,3 milljörðum. 

Kvikmyndin The Tomorrow War með Chris Pratt og J. K. Simmons fékk rúmar 200 milljónir endurgreiddar úr ríkissjóði sem þýðir framleiðslukostnað upp á 800 milljónir á Íslandi. Pratt var býsna duglegur að birta myndskeið frá tökunum hér á landi á samfélagsmiðlum. Það vakti þó athygli þegar hann greindi frá líkfundi upp á íslenskum jökli í viðtali við Ellen DeGeneres sem enginn hér á landi kannaðist við. 

Þriðja stóra erlenda verkefnið er sjónvarpsþáttaröðin Foundation sem er gerð fyrir streymisveitu Apple.  Tökurnar hér á landi voru mjög umfangsmiklar og fóru fram skammt frá höfuðborgarsvæðinu. Þættirnir eru byggðir á vísindaskáldsögum Isaac Asimov og skarta Jared Harris í aðalhlutverki. Ef þáttaröðin fellur í kramið hjá áskrifendum er líklegt að framhald verði á og Ísland áfram notað sem tökustaður.

Íslenska framleiðslufyrirtækið True North kom að framleiðslu verkefnanna hér á landi. 

 

Tengdar fréttir

Menningarefni

Ný þáttaröð Apple TV í tökum á Íslandi

Menningarefni

Þórdís Kolbrún hitti George Clooney

Kvikmyndir

Leita að fólki fyrir stórmynd George Clooney

Kvikmyndir

Chris Pratt og JK Simmons á leið til Íslands