Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Íbúar ekki látnir vita af útitónleikaröð

24.07.2020 - 19:16
Mynd: Kristinn Þeyr Magnússon / RÚV
Engar tilkynningar bárust íbúum um útitónleikaröð í miðborginni í sumar. Sviðsstjóri hjá Reykjavíkurborg segir það standa upp á tónleikahaldara að láta vita. Þó svo að borgin styrki og skipuleggi viðburði beri hún ekki ábyrgð á samráð sé haft við íbúa.

Húseigandi við Laugaveg hefur kvartað til Reykjavíkurborgar yfir því að hafa ekki verið látin vita af tónleikaröð, Secret Soltice, sem skipulögð er rétt við íbúð hans. Fyrstu tónleikarnir voru fyrstu helgi mánaðarins. Þeir verða allar helgar fram í ágúst. Benóný hefur búið í áratugi í miðbæ Reykjavíkur. Hann segir sjaldgæft er að borgin sendi íbúum tilkynningar um viðburði.

„Það er ekkert verið að vara okkur sérstaklega við götuhátíðum eða stórum viðburðum eða neinu þess háttar. Það er yfirleitt ekki gert,“ segir Benóný Ægisson, formaður Íbúasamtaka miðborgarinnar.

„Það eru tónleikarahaldararnir sem bera ábyrgð á tónleikunum. Borgin er ekki að halda tónleikana. En við ætlumst vissulega til þess að allir fari eftir þeim reglum sem borgin hefur sett,“ segir Arna Schram, sviðsstjóri menningar- og fræðslusviðs Reykjavíkurborgar.

„Þetta hefur t.d. ekki verið rætt í íbúaráðinu. Við höfum ekki fengið neinar tilkynningar til okkar,“ segir Benóný.

„Við auðvitað viljum bara gera eins vel og hægt er að gera. Þannig að það verður vissulega skoðað ef það eru fleiri óánægjuraddir sem  hefðu viljað vita af þessu,“ segir Arna.

En sem sagt borgin ber enga ábyrgð? Þetta náttúrulega viðburður sem er á vegum borgarinnar og hann er fjármagnaður eða styrktur af borginni?

„Já. Borgin ber vissulega ábyrgð á því að setja reglur um umgengni um miðborgina og borgina alla og hávaðatakmörk og fleira. En svo ætlast hún til þess að þeir sem eru með viðburði eða tónleikahald, fari eftir þeim reglum. Það er nú bara svona almennt líka ætlast til þess að fólk beiti almennri dómgreind eins og þegar maður sjálfur er með partí í heimahúsi að maður láti aðra i stigaganginum vita,“ segir Arna.

Húseigandinn kvartað einnig undan tónleikum í bakgarði hússins, þar sem meðal annarra eldgleypir sýndi listir sínar, og innheimtur var aðgangseyrir. 

Hefur borgin eitthvað aðhafst út af því?

„Ekkert svona formlega. Við höfum reynt að vísa erindum til heilbrigðiseftirlitsins sem mun þá kanna hvort það hafi verið stillt of hátt miðað við þau mörk sem leyfð eru,“ segir Arna.

Samkvæmt upplýsingum frá heilbrigðiseftirliti Reykjavíkur er mjög erfitt að meta hávaða eftir að atburður er liðinn. Viðbúið sé að rætt verði við tónleikahaldara. Það hafa fulltrúar borgarinnar líka gert.