Hvorugur hinna smituðu hafði verið í útlöndum

24.07.2020 - 11:29
Mynd: Bragi Valgeirsson / RÚV
Hvorugur þeirra, sem greindust með kórónuveiruna í gær, hafði verið í útlöndum. Þetta segir Þórólfur Guðnason, sóttvarnalæknir. Þetta eru fyrstu innanlandssmitin síðan í byrjun júlí. Tugir hafa þurft að fara í sóttkví, þar á meðal keppendur á stóru frjálsíþróttamóti sem fram fór í Hafnarfirði um síðustu helgi.

Þórólfur segir í samtali við fréttastofu að ekki sé vitað um uppruna smitsins og það er í fyrsta skipti í mjög langan tíma sem slíkt kemur upp. 

Smitin eru ekki talin tengjast, annar er Íslendingur sem hefur ekki verið í útlöndum en hinn er með tengsl við útlendinga sem komu erlendis frá. Hann hefur hins vegar ekki verið í útlöndum sjálfur. „Við erum að gera rannsóknir á veirunni til að sjá hvaðan hún er að koma en þetta tekur allt einhverja daga.“

Þórólfur segist ekki vita um aldur fólksins en það fór sjálft í sýnatöku eftir að hafa sýnt einkenni.  Erfitt sé að segja til um hversu margir þurfi að fara í sóttkví, það skýrist væntanlega í dag hver endanleg tala verði. 

Annar þeirra sem greindist keppti á frjálsíþróttamóti í Hafnarfirði. Rúmlega 200 keppendur voru skráðir til leiks, þar á meðal gestakeppendur frá Færeyjum. Þórólfur segir þetta sýna að öll svona mót og mannfagnaðir séu einhver áhætta en tekur fram að ekki sé vitað hvort frekara smit hafi átt sér staða á mótinu.

Þórólfur segir að auðvitað hefði hann viljað að svona smit kæmu ekki upp en þetta sé það sem þau hafi búist við. „Þetta kemur ekki á óvart. Þetta eru ekki síðustu tilfellin sem koma upp og þá grípum við til þeirra aðgerða sem við höfum; að rekja smit og setja fólk í sóttkví og einangrun.“

Freyr Ólafsson, formaður Frjálsíþróttasambands Íslands, sagði í samtali við fréttastofu fyrr í morgun,að eftir því sem hann best vissi hefði viðkomandi keppt í einhverjum greinum á mótinu. Stórt frjálsíþróttamót er fyrirhugað á Akureyri um helgina eða Meistaramót Íslands utanhúss. Freyr segir að mótið verði haldið að höfðu samráði við Almannavarnir.

freyrgigja's picture
Freyr Gígja Gunnarsson
Fréttastofa RÚV
solveigk's picture
Sólveig Klara Ragnarsdóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi