Fólksflótti af ungverskum fréttamiðli

24.07.2020 - 15:35
Mynd með færslu
 Mynd: Index.hu - Twitter
Yfirmenn og sjötíu starfsmenn ungverska fréttavefjarins Index.hu hafa sagt upp störfum í mótmælaskyni vegna þess að aðalritstjórinn var rekinn í vikunni. Starfsfólkið telur að brottreksturinn sé runninn undan rifjum stjórnvalda.

Í yfirlýsingu sem starfsfólkið sendi frá sér segir að það hafi ákveðið að segja upp störfum eftir að stjórnarformaður útgáfufélags vefjarins neitaði að draga uppsögnina til baka. Brottreksturinn sé klárlega pólitísk afskipti af efnistökum vefjarins. Ástæðan fyrir því að fleiri hafa ekki þegar sagt upp er sögð sú að margir eru í sumarfríi og hafa af þeim sökum ekki náð að tilkynna uppsögn sína.

Reuters fréttastofan hefur eftir ritstjóranum að uppsögnin sé augljóslega vegna greinar sem hann skrifaði nýlega um tilraunir utanaðkomandi til að hafa áhrif á ritstjórnarstefnu vefjarins og fréttir sem á honum hafa birst að undanförnu.

Í skriflegri yfirlýsingu sem stjórnarformaðurinn sendi frá sér segir að hann geti ekki undir neinum kringumstæðum endurráðið ritstjórann vegna alvarlegs trúnaðarbrests.

Utanríkisráðherra Ungverjalands, sem staddur er í Portúgal, sagði á fundi með fréttamönnum að ásakanir um pólitísk afskipti af Index.hu væru úr lausu lofti gripnar. Stjórnvöld gætu ekki skipt sér af einkareknum fjölmiðlum. Þau þyrftu stöðugt að sitja undir ósönnum ásökunum um að hefta frelsi fjölmiðla í heimalandinu.

asgeirt's picture
Ásgeir Tómasson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi