Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Drógu hjólhýsi upp á þjóðveginn með gröfum

24.07.2020 - 16:23
Mynd með færslu
 Mynd: Aðsend
Hjólhýsi losnaði frá bifreið í Varmahlíð fyrir hádegi í dag og hafnaði utan vegar. Gripið var til þess ráðs að nota vinnuvélar til þess að koma hjólhýsinu aftur á þjóðveginn. Að sögn Feykis Ómarssonar, verktaka sem aðstoðaði ökumennina, gekk aðgerðin fljótt og vel fyrir sig.

Hann segir að hjólhýsið hafi losnað skyndilega frá bifreiðinni og rúllað rakleiðis af veginum. Feykir segir mildi að hjólhýsið hafi ekki hafnað á annarri bifreið en mikil umferð hefur verið um Varmahlíð í dag.

Notaðar voru tvær gröfur til þess að draga hjólhýsið upp á veginn. Verkið tók fljótt af en þrátt fyrir það varð örlítil töf á umferð meðan á aðgerðunum stóð. Feykir segir að hjólhýsið sé algjörlega óskaddað og ökumennirnir gátu því haldið áfram ferð sinni. Hann segist áður hafa þurft að koma ökutækjum í vanda til aðstoðar. Hann segir þó ekki algengt að hjólhýsum sé bjargað á þennan hátt.

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV