Dönum finnst ferðamennirnir orðnir of margir

24.07.2020 - 10:15
epa06778545 People are enjoying the sun and water at Kastrup seaside resort in Copenhagen, Denmark, 01 June 2018. Temperatures rose to 30 degrees in the Danish capital.  EPA-EFE/MADS CLAUS RASMUSSEN  DENMARK OUT
 Mynd: EPA-EFE - Scanpix Denmark
Danir líkt og Íslendingar hafa margir valið að ferðast innanlands í ár vegna kórónuveirunnar. Þar líkt og hér hefur áhugi heimamanna á að nýta sér þjónustunna komið mörgum hótel- og veitingastaðaeigendum ánægjulega á óvart eftir tekjuhrun í faraldrinu. Sumum finnast þó ferðamennirnir orðnir of margir.

Á eyjunni Fanø hafa margir íbúar fengið nóg. Ferðamönnum hefur fjölgað um 20% frá því í fyrra og finnst íbúum ferðamennirnir nú vera orðnir of margir að því er danska ríkisútvarpið DR greinir frá.

„Við fáum of marga núna. Það er steituvaldand og þeir sem hafa lifibrauð sitt af þessu geta ekki sinnt þeim öllum því það er ekki pláss,“ hefur DR eftir Søren Vinding einum íbúanna.

Fleiri óánægjuraddir hafa tjáð sig um ferðamannafjöldann í Facebook hópnum Fanø-Forum og lýsti einn ástandinu sem „alveg biluðu“.

Ferðamönnum fjölgað um 1.000 á dag

Þeim sem taka ferjuna frá Esbjerg til Fanø fjölgaði um 22,5% á fyrstu þremur vikum júlímánaðar miðað við sama tíma í fyrra. Það ár komu tæplega 90.000 gestir með ferjunni á þessum tíma, nú eru þeir tæplega 110.000. Það samsvarar um 1.000 fleiri ferðamönnum á dag.

DR segir eina ástæðu þessa vera að dönsk stjórnvöld hafi gert gjaldfrjálst fyrir Dani að sigla á 53 ferjuleiðum í júlímánuði fyrir þá sem taka bílinn ekki með. Tilgangurinn var að glæða ferðamannaiðnaðinn lífi og hefur fjöldi Dana nýtt sér ferðirnar.

Íbúar á eyjunum sem siglt er til eru ekki allir jafn ánægðir með vinsældirnar sem gjaldfrjálsu ferjuferðirnar njóta. Rétt eins og á Fanø þá er löng röð í ferjuna sem siglir milli Fur og Salling og hefur raunar einni aukaferju verið bætt við til að en taka af stærsta kúfinn.

Jørgen Christiansen, eigandi kaffihússins På Herrens Mark á eyjunni Fur þarf nú daglega að vísa frá rúmlega hundrað gestum. Þó mörgum fyndist jákvætt að vera með fullbókað kaffihús lítur Jörgen ekki þannig á málið.

„Mér finnst þetta ekki vera lúxusvandamál,“ segir hann. „Ef það eru of margir þá verður upplifunin neikvæð. Fyrst að bíða í röð eftir ferjunni og svo að geta hvergi sest ef maður vill fá sér eitthvað að borða. Ég óttaðist þetta og við hefðum þurft að geta dreift þessu yfir ferðamannatímann.“

Vinding, sem býr á Fanø, segir svekkjandi að ferðamennirnir séu orðnir of margir. Venjulega sé það gleðiefni þegar margir koma.

„Þegar gestir koma hingað þá viljum við gjarnan tala við þá,“ segir hann. „Nú eru þeir of margir og það eru hjól út um allt.“

Anna Sigríður Einarsdóttir
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi