Berglind með þrennu er Breiðablik fór á toppinn

Mynd með færslu
 Mynd: Mummi Lú - RÚV

Berglind með þrennu er Breiðablik fór á toppinn

24.07.2020 - 21:05
Breiðablik vann öruggan 5-0 sigur á nýliðum Þróttar Reykjavík í Pepsi Max-deild kvenna á Kópavogsvölli í kvöld. Blikakonur fara á topp deildarinnar með sigrinum en þrír leikir voru á dagskrá í kvöld.

Berglind Björg Þorvaldsdóttir fór á topp listans yfir markahæstu leikmenn deildarinnar en hún skoraði þrennu fyrir heimakonur í Kópavogi í kvöld. Berglind hefur nú skorað tíu mörk í fyrstu sex leikjum Breiðabliks, tveimur meira en Elín Metta Jensen í Val.

Alexandra Jóhannsdóttir skoraði fjórða mark Breiðabliks og Agla María Albertsdóttir það fimmta í öruggum 5-0 sigri liðsins. Blikakonur fara með sigrinum upp fyrir Íslandsmeistara Vals í toppsæti deildarinnar. Breiðablik er með fullt hús stiga, 18 stig eftir sex leiki, og hefur enn ekki fengið á sig mark, með markatöluna 24-0. Liðið á þá enn fremur leik inni á Val sem er í öðru sæti með 16 stig eftir sjö leiki.

KR af fallsvæðinu - Fylkiskonur taplausar

KR komst þá upp úr fallsæti í kvöld, skaust upp úr níunda sæti í sjötta, eftir 3-0 heimasigur á botnliði FH í Vesturbæ Reykjavíkur. Katrín Ásbjörnsdóttir skoraði tvö marka KR en Angela Beard það þriðja. KR er eftir sigurinn með sjö stig í sjötta sæti.

Þór/KA er einnig með sjö stig, sætinu ofar vegna betri markatölu en KR. Þór/KA gerði 2-2 jafntefli við Fylki norðan heiða í kvöld. Markalaust var á Akureyri allt fram á 68. mínútu þegar Margrét Björg Ástvaldsdóttir kom Árbæingum í forystu. Nafna hennar Margrét Árnadóttir jafnaði fyrir Þór/KA tveimur mínútum síðar en Fylkir komst aftur í forystu með marki Bryndísar Örnu Níelsdóttur úr vítaspyrnu á 77. mínútu. Sjálfsmark Þórdísar Elvu Ágústsdóttur minna en mínútu síðar þýddi hins vegar að liðin skiptu stigunum með sér.

Fylkir á enn eftir að tapa leik í sumar en liðið er með 12 stig eftir sex leiki í þriðja sæti deildarinnar.