Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Tveir ákærðir fyrir setumótmæli í dómsmálaráðuneytinu

Mynd með færslu
Mótmælendur í dómsmálaráðuneyti í gær. Skjáskot úr myndbandi.  Mynd: Sigurpáll Viggó Snorrason
Tveir hafa verið ákærðir fyrir mótmæli í dómsmálaráðuneytinu í apríl í fyrra. Fréttablaðið greindi frá þessu í morgun. Báðir neita sök. Annar mannanna, Kári Orrason, skrifaði lögreglustjóra opið bréf vegna málsins í morgun.

Kári og fjórir félagar hans í samtökunum No-Borders voru handteknir í dómsmálaráðuneytinu í fyrravor. Aðdragandi handtökunnar var sá að lítill hópur félagsmanna No-Borders kom í ráðuneytið og vildi ræða við ráðherra um aðbúnað flóttamanna hér á landi.

Í kjölfarið greip hópurinn til þeirra ráða að setjast niður í anddyri ráðuneytisins í mótmælaskyni. Hópurinn efndi til mótmæla í anddyri ráðuneytisins nokkra daga í röð og voru lyktir mótmælanna alltaf þær að lögregla var kölluð til til þess að fjarlægja mótmælendurna.

Fréttablaðið hefur eftir Kára að fimm hafi verið handteknir vegna setumótmælanna. Tveimur úr hópnum hefur nú verið birt ákæra fyrir að hafa óhlýðnast fyrirmælum lögreglu um að yfirgefa anddyri dómsmálaráðuneytisins þann 5. apríl 2019. 

Í opnu bréfi til Höllu Bergþóru Björnsdóttur, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, segir Kári að ákæran hafi komið flatt upp á sig, en hann lýsir því í bréfinu að hann hafi séð til hennar á Black Lives Matter mótmælum á Austurvelli um daginn.

„Ég verð að segja að það kom mér svolítið á óvart, því mér fannst ég hafa séð þig þarna á Austurvelli að sýna stuðning við hreyfingu sem snýst um að hlusta á raddir sem hafa verið bældar alltof lengi, hreyfingu sem snýst um það að reyna að breyta kerfinu svo þeir sem hafa verið kerfisbundið kúgaðir fái loks réttlæti, fái að lifa við öryggi. Því þetta var það sem ég var að reyna að gera þegar ég var handtekinn við friðsamleg mótmæli í dómsmálaráðuneytinu í fyrra. Ég var að nýta rétt minn til mótmæla og stuðla að því að fólk í erfiðri og viðkvæmri stöðu gæti komið sínu fram. Ég var að reyna að breyta samfélaginu til hins betra,“ segir í bréfi Kára. 

Nína Hjördís Þorkelsdóttir
Fréttastofa RÚV