Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

Óvenjuleg staða sem mörgum þykir ógnvekjandi

23.07.2020 - 20:12
Fjölmenn sveit þungvopnaðra alríkislögreglumanna hefur gengið hart fram gegn mótmælendum sem berst gegn kynþáttamisrétti í borginni Portland í Oregonríki. Hafa lögregluliðið og ríkisstjórn Trumps verið harðlega gagnrýnd fyrir harkalegar og að margra mati ólöglegar aðfarir laganna varða. - Mynd: AP / AP
Spenna eykst stöðugt í borginni Portland í Bandaríkjunum þar sem mótmælendur takast á við lögreglusveitir sem Bandaríkjaforseti sendi þangað í óþökk yfirvalda á svæðinu. Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir að þetta virðist hluti af því að búa til frásögn sem nýtist forsetanum í kosningabaráttu fyrir kosningarnar í haust.

Donald Trump, Bandaríkjaforseti tilkynnti í gær að hann ætlaði að senda lögreglusveitir til fleiri borga í landinu.  „Ameríka verður að vera athvarf fyrir löghlýðna borgara. Draumur minn fyrir borgir Bandaríkjanna gæti ekki verið frábrugðnari lögleysunni sem öfgafulla vinstrið rekur áróður fyrir,“ segir Trump. Þá segist hann þegar hafa sent sveitir alríkislögreglumanna til Kansasborgar í Missouri. Forsetinn ætlar að senda slíkar sveitir einnig til Chicago og Albequerque. 

Með þessu segist forsetinn vilja gera löggæslu öflugri. Það er á skjön við kröfur mótmælenda, sem hófu að mótmæla eftir að George Floyd var drepinn fyrir nærri tveimur mánuðum af lögreglumanni. Í sumum borgum hefur verið mótmælt daglega síðan þá, til dæmis í Portland í Oregon. Þangað sendi forsetinn lögreglusveitir fyrr í þessum mánuði og hefur framferði þeirra verið harðlega gagnrýnt af stjórnvöldum á svæðinu. Þær hafa keyrt um í ómerktum bílum og handtekið mótmælendur, jafnvel án gruns um nokkurn glæp. Borgarstjóri Chicago óttast að það sama verði upp á teningnum þar. Glæpatíðini hefur aukist mjög í Chicago en fleiri efast samt um að aukin löggæsla sé svarið. 

„Það styttist æ í kosningar“

Silja Bára Ómarsdóttir, prófessor í stjórnmálafræði, segir fordæmi fyrir aðgerðum sem þessum. „Það eru fordæmi ef maður fer svolítið aftur í söguna. Síðast þegar þetta var gert er 1992 þegar að óeirðirnar eftir Rodney King málið í Los Angeles voru. Þá var það að beiðni ríkisstjórans í Kaliforníu.“

Sjálf bjó Silja Bára í Portland og lærði við Háskóla þar. Hún fer þangað reglulega og segir ógnvekjandi að fylgjast með og sjá vini sína verða fyrir áverkum við mótmælin. 

Silja Bára segir að það sem sé að gerast í dag sé þó óvanalegt og mörkum þyki aðgerðir forsetans ógnvekjandi og setja slæmt fordæmi. „Það styttist æ í kosningar og tilfinningin sem maður fær er að þetta sé hluti af því að búa til einhverskonar frásögn og myndmál sem að ratar auðvitað inn í fjölmiðla þannig að fólk sem býr fjær og óttast þessa stórborgarmenningu, fjölmenningu og stjórn demókrata. Það horfir á þetta og segir já það þarf sannarlega að mæta þessu með hörku og Trump er sá sem við getum treyst til þess að gera það,“ segir Silja Bára.