Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Ósáttur við umfjöllun RÚV um stöðu hinsegin fólks

23.07.2020 - 17:53
Mynd með færslu
 Mynd:
Sendiherra Póllands á Íslandi er ósáttur við að fjallað sé um versnandi stöðu hinsegin fólks í Póllandi í íslenskum fjölmiðlum. Hann sendi fréttastofu yfirlýsingu þess efnis. Staða hinsegin fólks er verst í Póllandi, af öllum löndum ESB.

Í orðsendingu til fréttastofu segir Gerard Pokruszynski, sendiherra Póllands á Íslandi, að frétt fréttastofu RÚV „innihaldi rangar upplýsingar og móðgandi ummæli gagnvart pólska samfélaginu“. Ekki er tilgreint hvað er rangt í fréttinni og það gagnrýnt að skilja megi af fréttinni að hatur í garð hinsegin fólks sé stutt af pólskum stjórnvöldum.

Þetta er ekki í fyrsta sinn sem Pokruszynski gagnrýnir fréttaflutning íslenskra fjölmiðla af málefnum Póllands og Pólverja. Fyrir tæpum tveimur árum sendi hann forseta Íslands og forsætisráðherra bréf og kvartaði undan því sem hann kallaði falsfrétt í Stundinni.

Í fréttinni sem birt var 12. júlí er haft eftir Júlíu Maciocha, formanni pólskra baráttusamtaka fyrir réttindum hinsegin fólks, að ótrúlegt sé hversu hratt og mikið staða hinsegin fólks hefur versnað í Póllandi síðustu mánuði. Hún segir að samlandar hennar séu farnir að hvetja til þess að útrýmingarbúðir nasista verði opnaðar aftur svo hægt sé að myrða hinsegin fólk.

Mynd með færslu
 Mynd: Óskar Þór Nikulásson - RÚV
Júlía Mciocha berst fyrir réttindum hinsegin fólks í Póllandi.

Í nýafstöðnum forsetakosningum í Póllandi, þar sem sitjandi forseti Andzrej Duda var endurkjörinn, var hinsegin fólk gert að kosningamáli. Duda telur það ógn við pólsk gildi að fólkið fái að gifta sig og ættleiða börn. Lög og réttlæti, flokkur Duda, gerði þetta einnig að kosningamáli fyrir þingkosningarnar í fyrra.

Fyrir þingkosningarnar fór fréttastofa til Varsjá og hitti Maciocha. Þá var þungt í henni hljóðið en hún segir stöðu hinsegin fólks enn verri í dag. Stjórnmálin hafa klofið samfélagið í Póllandi síðustu ár. Maciocha segir að gjáin milli fólks dýpki stöðugt.

„Móðgandi“ og „sérstaklega meiðandi“ fyrir Pólverja

Svívirðingarnar sem Maciocha vitnar til í umræddri frétt og Pokruszynski gerir að umtalsefni í orðsendingunni viðhafði stuðningsmaður Duda í aðdraganda kosninganna. Stuðningsmaðurinn hafði verið spurður hvað honum fyndist um hinsegin fólk og svaraði með svívirðingum og hótunum. Ummæli mannsins hafa verið kærð til lögreglu. Þetta er ekki eina dæmið um ofstæki í garð pólsks hinsegin fólks.

„Þessi orð sem Júlía notaði eiga við ummæli eins mans sem voru tekin upp,“ segir í yfirlýsingu sendiherrans sem rituð er á íslensku. Hann segir að bæði pólskt samfélag og pólsk yfirvöld telji að þessi ummæli skuli fordæma harðlega.

Mynd með færslu
 Mynd: Þór Ægisson - RÚV
Pólska sendiráðið í Þórunnartúni í Reykjavík.

„Fyrir Pólverja, þjóðina sem hefur verið vitni að útrýmingarstefnu nasista eru slík ummæli um að þau styðji opnun fyrrum þýsku útrýmingarbúða nasista til þess að myrða hinsegin fólk móðgandi og sérstaklega meiðandi,“ segir í yfirlýsingu Pokruszynski.

„Í Póllandi er refsað fyrir ofsóknir gagnvart hinsegin fólki og svona tilvik fordæmd af yfirvöldum,“ skrifar Pokruszynski enn fremur.

Erfitt þegar ríkið er á móti

Maciocha var tilnefnd sem kona ársins í Varsjá í fyrra fyrir baráttu sína fyrir réttindum hinsegin fólks. Baráttusamtök hennar standa meðal annars fyrir Gleðigöngunni þar í landi, sem heitir þó ekki gleðiganga heldur Jafnréttisganga, í lauslegri þýðingu. Maciocha segir það afar erfitt og lýjandi að standa í baráttu sem ríkisstjórn og forseti beiti sér markvisst gegn.

Duda forseti hefur lofað að banna það sem hann kallar áróður fyrir hinsegin hugmyndafræði í opinberum stofnunum Póllands. Hann hefur jafnframt lofað að koma í veg fyrir að samkynhneigð pör geti ættleitt börn.

epa08376910 Polish President Andrzej Duda during a press conference broadcast by TVP at the Presidential Palace in Warsaw, Poland 16 April 2020.  EPA-EFE/Pawel Supernak POLAND OUT
Andrzej Duda, forseti Póllands. Mynd: EPA-EFE - PAP
Andzrej Duda var endurkjörinn forseti Póllands fyrr í þessum mánuði.

„Við vorum óvinir þjóðarinnar. Og núna erum við ekki einu sinni manneskjur, samkvæmt þeim,“ segir Maciocha í fréttinni. „Svo að ríkisstjórnin og núverandi forseti er að segja að við séum ekki manneskjur heldur bara einhver hugmyndafræði. Það var viðtal fyrir fáeinum dögum við fólk í sveitum Póllands og það sagði að opna ætti aftur útrýmingarbúðirnar og drepa fólk eins og mig.“

Versnandi staða hinsegin fólks

Í nýjustu uppfærslu Regnbogakortsins þar sem lagt er mat á stöðu hinsegin fólks í Evrópu hefur Pólland fallið neðst meðal aðildarríkja Evrópusambandsins. Þar er virðing fyrir mannréttindum metin 13 prósent.

Regnbogakortið byggir á regnbogastuðlinum. Þar er tekið tillit til lagaumhverfis og félagslegra þátta til þess að meta og bera saman félagslega stöðu hinsegin fólks í mismunandi löndum. Alls eru 69 þættir metnir.

Ísland fær 54 prósent í úttektinni í ár. Danmörk og Noregur fá 68 prósent en Malta er á toppnum með 89 prósent. Nánar má rýna í úttektina á vef IGLA-Europe.

Mynd með færslu
 Mynd: RÚV

Yfirlýsing pólska sendirherrans

Hér að neðan er yfirlýsing pólska sendiherrans birt eins og hún barst fréttastofu í gær.

Greininn sem ber titil: „Staða hinsegin fólks í Póllandi fer versnand“ og birtist á ruv.is 12. júlí 2020 inniheldur rangar upplýsingar og móðgandi ummæli gagnvart pólska samfélaginu.

Fréttin vísar í viðtal við Julíu Maciocha formanns samtakanna LGBT  sem telur eins og segir í greininni að  "Samlandar hennar séu farnir að hvetja til þess að útrýmingarbúðir nasista verði opnaðar aftur svo hægt sé að myrða hinsegin fólk".  Ef við tökum það til greina að höfundur greinarinnar vísar beint í viðtal við Júlíu Maciocha og er ekki ábyrgur um það sem Júlía segir, þá gefur greinin lesendum til kynna að svoleiðis hugsunarháttur á við um allt pólska samfélagið og sé studdur af yfirvöldum í Póllandi. Þessi orð sem Júlía notaði eiga við ummæli eins manns sem voru tekin upp. Bæði pólsku yfirvöldin og pólskt samfélag telja að þeim skal harðlega fordæma. Fyrir Pólverja, þjóðina sem hefur verið vitni að  útrýmingarstefnu nasista eru slík ummæli um að þau styðji opnun fyrrum þýsku útrýmingarbúða nasista  til þess að myrða hinsegin fólk móðgandi og sérstaklega meiðandi.

Í Póllandi er refsað fyrir ofsóknir gagnvart hinsegin fólki og svona tilvik fordæmd af yfirvöldum.

Eitt af umfjöllunarefnum sem birtist við forsetakosningar í Póllandi og tengdust hinsegin fólks voru giftingar og ættleiðingar  barna. Nú sem stendur bjóða lögin í Póllandi ekki upp á þessa möguleika en eins og í mörgun öðrum lýðræðislegum löndum eru þessi mál tekin til pólítísku umræðu.

Gerard Pokruszynski
Sendiherra Póllands á Íslandi