Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Ef ekkert heyrist í sólarhring er sýnið neikvætt

Mynd: Lögreglan / Lögreglan
Á næstu dögum verður upplýsingagjöf til þeirra sem fara í skimun á landamærum breytt. Þá verða upplýsingar um fjölda smita uppfærðar sjaldnar en áður. Þessi áform voru kynnt á upplýsingafundi almannavarna í dag. Þeim síðasta sem fram fer í bili. Einn greindist með virkt smit á landamærunum í gær. Ekkert smit hefur greinst í seinni skimun hjá Íslendingum sem hafa viðhaft heimkomusmitgát.

Minnka álag og tryggja að upplýsingar skili sér

Frá og með næsta laugardegi verður einungis haft samband við þá ferðalanga sem reynast smitaðir við komuna til landsins, aðrir sem fara í skimun á landamærunum geta, að sólarhring liðnum, gefið sér að þeirra sýni hafi verið neikvætt. Þetta er gert í þeim tilgangi að tryggja betur að upplýsingarnar skili sér og létta álagi af starfsfólki almannavarna sem hefur haft í nógu að snúast við að svara fyrirspurnum fólks sem flest vill vita það sama, hvenær það fái út úr skimuninni.

„Það er búið að vera gríðarlega mikil vinna hjá okkar starfsfólki frá því snemma á morgnana og fram á nótt að svara fyrirspurnum, yfir hundrað og fimmtíu á dag, kerfið hefur ekki verið alveg fullkomið í þessu og síðan eru vandamál varðandi mótttöku upplýsinganna í símum hjá ferðamönnum. Frá og með laugardegi verður það þannig að ef ekki er búið að hafa samband innan sólarhrings þá hefur sýnið þitt verið neikvætt,“ sagði Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn hjá ríkislögreglustjóra, á fundinum. 

Tölur uppfærðar sjaldnar

Það stendur líka til að breyta almennri upplýsingagjöf á vefsíðunni covid.is og uppfæra tölur yfir smit og sýni sjaldnar en áður. Í stað þess að birta tölurnar daglega verða þær birtar tvisvar í viku, á þriðjudögum og föstudögum. 

Lögreglan með viðbúnað

Karl Steinar Valsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, var gestur fundarins. Hann talaði um stóru ferðahelgarnar sem nú eru að fara í hönd og hættuna á því að fólk hópaðist saman með tilheyrandi smithættu. Lögreglan er með aukinn viðbúnað vegna þessa. 

Ekkert smit eftir heimkomusmitgát

Einn greindist með virkt smit á landamærunum í gær. Ekkert smit hefur greinst í seinni skimun hjá Íslendingum.  Þórólfur segir að hugsanlega verði fyrirkomulagið endurskoðað, reynist ekki þörf á því. Það var tekið upp eftir að tvær litlar hópsýkingar komu upp, báðar tengdar einstaklingum með tengslanet á Íslandi. 

Fundurinn er sagður sá síðasti í bili en Þórólfur segir að aftur verði boðað til reglulegra funda verði tilefni til. 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV