Athugið þessi frétt er meira en mánaðargömul.

Atvinnuleysi minnkar um 6,4 prósentustig milli mánaða

Mynd með færslu
 Mynd: Ragnar Visage - RÚV
Atvinnuleysi í júnímánuði mældist 3,5 prósent samkvæmt bráðabirgðatölum frá Hagstofu Íslands. Hlutfallið lækkaði um 6,4 prósentustig frá því í maí þegar það mældist 9,9 prósent.

Í tilkynningu frá Hagstofunni kemur fram að atvinnuleysi í júní er mjög svipað og í júní í fyrra, þegar það mældist 3,2 prósent. Í júní er áætlað að um 217.200 hafi verið á vinnumarkaði og það jafngildir 83,1 prósenta atvinnuþátttöku. Af vinnuaflinu er áætlað að 209.500 hafi verið starfandi en 7.700 án vinnu eða í atvinnuleit. 

Þó kemur fram að tölurnar séu bráðabirgðatölur og að vísbendingar séu um að fjöldi atvinnulausra sé vanmetinn þar sem þeir sem fengu greiddar atvinnuleysisbætur í júní hafi verið ólíklegri til að svara spurningalista vinnumarkaðsrannsóknarinnar heldur en aðrir. Tölurnar verði endurskoðaðar í lok ársfjórðungs.

Ólíkar tölur Hagstofu Íslands og Vinnumálastofnunar

Samkvæmt gögnum frá Vinnumálastofnun mældist atvinnuleysi í júní 7,5 prósent. Stofnanirnar tvær nota ólíkar aðferðir til að meta atvinnuleysi. Tölur Hagstofunnar koma úr spurningakönnun sérstakrar vinnumarkaðsrannsóknar en Vinnumálastofnun metur atvinnuleysi út frá fjölda á atvinnuleysisbótaskrá. Að sögn sérfræðings hjá Hagstofu Íslands gæti munurinn skýrst af því að skilgreining Hagstofunnar yfir atvinnuleysi er þrengri. Þar þarf fólk til dæmis að vera tilbúið að hefja störf innan ákveðins tíma til þess að teljast atvinnulaust. Samkvæmt skilgreiningu Vinnumálastofnunar getur fólk talist atvinnulaust að hluta, en ekki samkvæmt skilgreiningu Hagstofunnar. Þá miða tölur Hagstofunnar við meðalfjölda einstaklinga á aldrinum 16-74 ára en Vinnumálastofnun miðar við fólk á aldrinum 18-69 ára.