„Andartakshlé“ en fundað aftur fyrr en ætla má

Mynd: RÚV / RÚV
Víðir Reynisson, yfirlögregluþjónn ætlar að nýta það andartakshlé sem núna gefst þegar hlé verður gert á fundarhaldi Almannavarna í einhverja daga. Það verði þó ekki lengi því næsta verkefni sé að læra að lifa með veirunni.

Þegar þú lítur til baka á þessum tímapunkti og metur stöðuna hvernig fannst þér takast til? 

„Að mörgu leyti bara mjög vel. Okkur tókst að ná markmiðunum og fletja út kúrvuna og koma í veg fyrir það að ofurálag myndaðist á heilbrigðiskerfið. 

Auðvitað var mjög mikið álag í mjög langan tíma en okkur tókst held ég með mjög samstilltu átaki þjóðarinnar að koma í veg fyrir það að þetta ofurálag sem við óttuðumst mest skapaðist.“

Víðir segir undanfarna mánuði hafa verið mikið lærdómsferli. Það muni gagnast næstu misseri þegar við lærum að lifa veirunni.

Varðandi mögulegar áskoranir sem næstu tvær ferðahelgar hafa í för með sér fyrir lögregluna segir Víðir lögregluna sinna hefðbundinni löggæslu og að eftirlit á þjóðvegum sé aukið í flestum embættum.

„Að auki eru embættin að setja sig í samband við rekstraraðila tjaldstæða þar sem fólk safnist saman. Á sama tíma biðlum við til fólks að vera skynsamt. Í Sameiningu munum við leysa þetta verkefni,“ segir Víðir. 

Hvenær heldurðu að næsti fundur verði? „Fyrr en við ætlum.“

Því miður? „Já.“

Þú efast ekkert um að þetta sé búið? „Nei, nei, við verðum bara að vera tilbúin að takast á við þetta. Nú er andartaks hlé og við nýtum það.“

 

Valgerður Árnadóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi