Trump snýr við blaðinu og hvetur til grímunotkunar

22.07.2020 - 00:43
epa08559362 US President Donald J. Trump speaks during a Coronavirus Task Force news conference in the Brady Press Briefing Room at the White House in Washington, DC, USA, 21 July 2020.  EPA-EFE/SARAH SILBIGER / POOL
 Mynd: EPA-EFE - UPI POOL
Donald Trump, forseti Bandaríkjanna, hvetur nú landa sína til að bera andlitsgrímu þegar þeir geta ekki haldið þeirri samskiptafjarlægð sem mælt er með. Þetta kom fram í máli forsetans á blaðamannafundi í Hvíta húsinu í kvöld, þeim fyrsta sem forsetinn hefur haldið um framvindu kórónaveirufaraldursins síðan í apríl.

Á fundinum hvatti hann fólk fortakslaust til að vera með grímur hvar sem margir koma saman, hvort sem því líkar það betur eða verr. Grímurnar hafi sannað gildi sitt, sagði Trump, sem til skamms tíma lét aldrei sjá sig með grímu, þrátt fyrir að flestir í kringum hann hefðu slíka fyrir vitum sér.

Sjá einnig: Trump hvetur til grímunotkunar

Forsetinn var heldur ekki með grímu á blaðamannafundinum en hvatti alla til að bera grímu innan um annað fólk, í það minnsta þar sem óhægt er um vik að halda sig í öruggri fjarlægð frá næsta manni. Hann hvatti til hins sama á Twitter að kvöldi mánudags.

Hófstilltari málflutningur forsetans

Það vakti athygli að Trump var öllu alvarlegri í fasi og hófstilltari í yfirlýsingum sínum á þessum fundi en fyrri fundum um faraldurinn og tók fram að ástandið ætti að líkindum enn eftir að versna, áður en það tæki að batna.

AFP-fréttastofan hefur eftir stjórnmálaskýrendum að með þessu freisti forsetinn þess að auka trú kjósenda á getu hans til að takast á við faraldurinn og afleiðingar hans, nú þegar rétt rúmir þrír mánuðir eru í kosningar, yfir 140.000 manns hafa látist úr COVID-19 í Bandaríkjunum og smit-tilfellum fjölgar enn með ógnarhraða. Kannanir sýna að kjósendur vestra hafa mun meiri trú á keppinaut Trumps, Joe Biden, í þessum efnum.

Fauci var ekki boðið

Þá vakti það líka athygli að Anthony Fauci, helsti sérfræðingur Bandaríkjastjórnar í sóttvarnarmálum, var ekki á blaðamannafundinum, ólíkt því sem tíðkaðist á þessum upplýsingafundum í vor. Í samtali við CNN-sjónvarpsstöðina sagðist Fauci ekki hafa fengið boð eða beiðni um að mæta á fundinn. 

 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi