Stefnt er að því að malbika tvo kafla á Miklubraut í kvöld og fræsa hluta af Vesturlandsvegi.
Tveir kaflar á Miklubraut verða malbikaðir í kvöld eftir klukkan 18:00. Annars vegar frá og með gatnamótum Háaleitisbrautar að gatnamótum við Grensásveg, og hins vegar frá mislægum gatnamótum við Skeiðarvogsbrú að mislægum gatnamótum við Reykjanesbraut. Þrengt verður í eina akrein á meðan á framkvæmdum stendur.
Þá kemur einnig fram í tilkynningu frá Vegagerðinni að á sama tíma sé stefnt á að fræsa hægri akrein á Vesturlandsvegi, frá rampi við Suðurlandsveg að rampi við Höfðabakka. Ramparnir verða lokaðir og Vesturlandsvegur þrengdur í eina akrein.
Búast má við að framkvæmdir á báðum stöðum standi yfir frá klukkan 18:00 til klukkan 03:00 í nótt.