Athugið þessi frétt er meira en 12 mánaða gömul.

Skipuleggjandi harmar umræðu um tónleika á Egilsstöðum

Mynd með færslu
 Mynd: Valaskjálf
Fernir tónleikar hafa verið auglýstir á hótelinu Valaskjálf á Egilsstöðum um verslunarmannahelgina. Skipuleggjendur hafa verið gagnrýndir fyrir það á samfélgsmiðlum að engar konur skuli koma fram. Þráinn Lárusson, eigandi hótelsins, segir í samtali við fréttastofu að sér finnist afskaplega leiðinlegt að tónleikarnir hafi raðast niður með þessum hætti og segist sammála því að það sé vont að engin kona stígi á svið þessa helgi. 

Á auglýsingu fyrir tónleikaröðina er mynd af tónlistarmönnunum sextán sem koma fram um verslunarmannahelgina. Það eru meðlimir hljómsveitanna Dúndurfrétta og Ljótu hálfvitanna, auk MC Gauta og dúósins Óskars Péturssonar og Eyþórs Inga Jónssonar. Þuríður Blær Jóhannsdóttir, leikkona og tónlistarkona, deilir til dæmis auglýsingunni á Facebook þar sem hún gagnrýnir að engar konur komi fram og „Kíton – konur í tónlist“ deilir færslunni. 

Segir tónlistarmennina hafa bókað salinn sjálfir

„Þetta er ekki tónlistarhátið. Það geta allir komið og haldið tónleika. Þessir tónlistarmenn, að undanskildum Óskari og Eyþóri, bókuðu salinn sjálfir og sjá sjálfir um að halda tónleikana,“ segir Þráinn. Hótelið hafi óskað eftir því við Óskar og Eyþór að þeir spiluðu þessa helgi, ekki síst því hann vissi að heimamenn, og sérstaklega eldra fólkið á svæðinu, hefðu gaman af. Hann segist hafa fengið grafískan hönnuð til að stilla öllum tónleikunum upp á auglýsingaplakat til þess að vekja athygli á tónleikunum um verslunarmannahelgina.  

Hefðu mátt huga að kynjahlutföllum

Aðspurður hvort honum finnist ekki verra að engin kona stígi á stokk á hótelinu alla verslunarmannahelgina segir hann: „Ég get alveg verið sammála því, þetta er afskaplega leiðinlegt, en það eru hljómsveitirnar sem bóka salinn“. Spurður hvort skipuleggjendur hefðu átt að leggja sig fram um að tryggja jafnari kynjahlutföll, til dæmis með því að fá tónlistarkonur í stað Óskars og Eyþórs, segir hann að eftir á að hyggja hefðu þau sjálfsagt átt að gera það.

Mánudagskvöldið enn óbókað

Hótelið mun ekki hafa samband við tónlistarkonur og biðja þær um að koma, segir Þráinn aðspurður hvort til standi að bregðast við kynjahallanum um verslunarmannahelgina með einhverjum hætti. Hins vegar hafi enginn bókað mánudagskvöldið. „Ef einhverjar konur vilja spila það kvöld þá geta þær haft samband,“ segir Þráinn.

Aðspurður hvort hann sjái fyrir sér að hótelið breyti starfsháttum í framtíðinni til að koma í veg fyrir að einungis karlkyns tónlistarmenn stígi á svið á helgi sem þessari segir Þráinn að í starfsemi hótelsins sé mjög langt frá því að það halli á konur. „Framkvæmdastjórinn er kona og það eru allar konur velkomnar. Það koma oft fram konur og við röðuðum þessu ekki niður svona,“ segir hann. „Mér finnst þetta óskaplega leiðinlegt og leiðinleg umræða,“ segir Þráinn að lokum.