Níu fórust er herþyrla fórst í Kólumbíu

22.07.2020 - 03:17
Sikorsky UH-60 Black Hawk í þjónustu Bandaríska hersins í Evrópu
Sikorsky Black Hawk þyrla á vegum Bandaríkjahers, sömu tegundar og sú sem hrapaði í frumskógum Kólumbíu á þriðjudag Mynd: USDD - Wikipedia
Níu hermenn fórust og sex særðust þegar kólumbísk herþyrla hrapaði í suðausturhluta Kólumbíu í gær, þriðjudag. Alls voru 17 manns um borð í þyrlunni, sem var í herleiðangri gegn skæruliðum þegar hún fórst. Herinn hefur ekki gefið upp hvort þyrlan hafi hrapað fyrir slysni eða verið skotin niður. Þá hefur heldur ekki verið upplýst hvort þeir tveir menn sem hvorki eru sagðir slasaðir né látnir séu heilir á húfi eða ófundnir enn.

Þyrlan, sem var af gerðinni Black Hawk, hrapaði í Inirida-ána í frumskógarhéraðinu Guaviare.

Var í leiðangri gegn klofningshópi úr FARC

Herleiðangurinn sem þyrlan tók þátt í beindist gegn klofningshópi úr FARC-skæruliðasamtökunum, sem ekki er aðili að friðarsamkomulagi samtakanna við stjórnvöld frá 2016. AFP-fréttastofan greinir frá því að kólumbísk stjórnvöld áætli að um 2.300 fyrrverandi FARC-liðar séu enn undir vopnum í frumskógum Kólumbíu, þar sem þeir rækta, framleiða og selja kókaín og stunda ólöglega námavinnslu til að sjá sér farborða og fjármagna baráttu sína. 

 

Ævar Örn Jósepsson
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi