„Lítur hann út fyrir að vera skattgreiðandi?“

22.07.2020 - 12:34
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Kona sem í gærkvöldi hringdi í neyðarlínuna vegna samborgara í neyð segir að sér hafi blöskrað orðfæri lögreglumanns á fjarskiptamiðstöð ríkislögreglustjóra. Hún greinir frá reynslu sinni í færslu á Facebook. Málið er til skoðunar hjá embætti ríkislögreglustjóra.

Virtist vera með skerta meðvitund

Konan var á gangi í miðborg Reykjavíkur og sá þar mann sem sat á gangstéttarbrún og virtist vera með skerta meðvitund. Hún hringdi í neyðarlínuna og var í kjölfarið gefið samband við lögreglumann. Í færslunni segir hún að lögreglumaðurinn hafi, eftir að hún hafði lýst ástandi mannsins eins vel og hún gat, spurt hvort maðurinn liti út eins og skattgreiðandi.

Hún segist hafa orðið orðlaus og spyr sig nú hvað lögreglumaðurinn hafi átt við, hvort hann hafi verið að vísa til uppruna mannsins eða félagslegra aðstæðna. Spurningin hafi verið ótrúlega fordómafull og bendi til þess að viðbrögð lögreglu fari eftir því hver eigi í hlut hverju sinni. 

Embættið segir ekki tímabært að tjá sig

Upplýsingafulltrúi ríkislögreglustjóra segir í samtali við fréttastofu að ekki hafi borist formleg kvörtun vegna málsins en að það verði tekið til skoðunar. Hann sagði ekki tímabært að tjá sig um meint orðfæri fyrr en búið væri að hlusta á upptöku af samtalinu og skoða málið í heild sinni.

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV
Síðast:
Þessi þáttur er í hlaðvarpi