Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Jákvætt að fresta PISA-könnuninni um eitt ár

22.07.2020 - 12:26
Mynd með færslu
 Mynd: RÚV
Arnór Guðmundsson forstjóri Menntamálastofnunnar segir að það sé jákvætt að Pisa-prófinu hafi verið frestað. Æskilegt sé að hafa meiri tíma á milli heldur en þrjú ár og fjögur ár henti betur. Meiri tími gefist til að vinna úr gögnum.

PISA-könnuninni, sem leggja átti fyrir 15 ára nemendur víða um heim næsta vor, hefur verið frestað um eitt ár eða til vors 2022. Það er gert vegna farsóttarinnar sem nú geisar um heiminn.  

„Mér finnst það í sjálfu sér jákvætt að það hafi verið tekin sú ákvörðun að fresta um eitt ár. Þetta er langt ferli með PISA. Við erum rétt búin að skila skýrslu núna í desember og þá fer strax af stað forprófun fyrir næstu fyrirlögn sem átti að vera á næsta ári. Og við höfum gjarnan viljað fá meirir tíma til að vinna úr gögnum og skoða niðurstöðuna betur.“

PISA-könnunin er lögð fyrir á þriggja ára fresti.  
 
„Við höfum verið þeirra skoðunar að það væri æskilegt að hafa lengri tíma milli fyrirlagna. Fjögur ár held ég að sé ágætis bil.“
 
Mikil vinna er við PISA. Stofnunin hafi verið nýbúin að ráða fólk til að forprófa. Ísland hafi verið eitt af tveimur löndum sem náði að forprófa spurningar sem átti að leggja fyrir næst.
 
„Það er margt sem þarf að huga að varðandi þýðingar og hvort að spurningarnar eigi við hér á landi o.s.frv. Og það held ég að sé bara æskilegt að hafa lengri tíma til að skoða og kafa ofaní niðurstöðurnar.“

Ráða þurfi verktaka og útvega tækjabúnað þau ár sem könnunin er lögð fyrir.  
„Þannig að það verður ákveðinn sparnaður á næsta ári sem vonandi nýtist þá í að greina þetta betur. Það er komið mikið gagnasafn sem er mikil þörf á að skoða og greina.“

 

Bergljót Baldursdóttir
Fréttastofa RÚV