Athugið þessi frétt er meira en 9 mánaða gömul.

„Hálfsúrrealískt að ætla að hunsa þetta“

22.07.2020 - 16:43
Mynd með færslu
 Mynd: Wikimedia Commons
Leikkonunni Þórdísi Björk Þorfinnsdóttur bárust grófar lífláts- og nauðgunarhótanir eftir að skjáskot af ummælum sem hún lét falla um Raufarhöfn og Kópasker fór í dreifingu á samfélagsmiðlum. Þórdís hefur ákveðið að kæra þá sem stóðu að baki grófustu hótununum til lögreglu. Leikhópurinn Lotta, hverfisráð Raufarhafnar og hverfisráð Öxarfjarðar sendu síðdegis frá sér yfirlýsingu um málið til að reyna að lægja öldurnar.

Samfélagsmiðlastormur

Þórdís er hluti af leikhópnum Lottu sem nú er á ferð um landið að sýna barnasýningu um Bakkabræður. Þegar hópurinn var á ferð um Melrakkasléttuna birti Þórdís myndir og texta þar sem hún sagðist glöð að geta krossað Kópasker og Raufarhöfn út af listanum, hún mælti ekki með því að fólk legði leið sína þangað. Þórdís hefur beðist afsökunar á ummælunum, sem hún kallar mislukkaðan brandara, það hafi verið vont veður og ummælin tengd því. Orð hennar vöktu mikla reiði og Þórdísi hefur nú borist fjöldi grófra hótana, auk þess sem netverjar hafa kallað hana ýmsu illum nöfnum. Í samtali við fréttastofu segir hún að kæran hafi verið lögð fram vegna fimm eða sex hótana. Alls hafi hún fengið yfir fjörutíu skilaboð, mörg frá nafnlausum nettröllum.

Vonar að fólk geti lært af málinu

Í færslu sem hún birti á Facebook síðdegis segist hún vona að málið geti orðið til þess að fólk íhugi hvernig það hagar sér á samfélagsmiðlum. Á einu augabragði hafi hún verið úthrópuð af fólki sem ekki þekkti til hennar og vissi ekki í hvaða samhengi hún tjáði sig. Hún vonar að fólk staldri við og leyfi öðrum að njóta vafans. 

Vonar að mennirnir fái alvarlegt tiltal og fræðslu

Þórdís Björk segist áður hafa fengið svipaðar hótanir í tengslum við þátttöku sína í hljómsveitinni Reykjavíkurdætur. Hún segir í raun hálfsúrrealískt að hafa ætlað sér að hunsa skilaboðin og halda áfram með líf sitt. Henni hafi verið bent á alvarleika málsins og eftir það hafi hún ákveðið að leggja fram kæru. Hún brenni ekki af hefndarþorsta gagnvart þeim sem hótuðu henni en vilji að þeir fái alvarlegt tiltal og fræðslu svo að hegðun þeirra þróist ekki út í eitthvað alvarlegra. 

Þórdís tekur fram að hún beri engan kala til samfélaganna á Kópaskeri og Raufarhöfn og dæmi engan fyrir gjörðir einstaklinga sem greinilega þurfi hjálp. 

Reyna að stýra andstyggilegu máli á réttan veg

Síðdegis sendu Leikhópurinn Lotta,  hverfisráð Raufarhafnar og hverfisráð Öxarfjarðar frá sér sameiginlega yfirlýsingu, þar segir að málið hafi verið öllum þungbært og þau vilji nú gera það sem hægt er til að lægja öldurnar. Mikil og góð samskipti hafi átt sér stað milli leikhópsins og fulltrúa hverfisráðanna og fullur skilningur á milli allra um að mistök hafi átt sér stað sem drógu þennan dilk á eftir sér. Málinu sé þannig lokið á góðum nótum milli leikhópsins, Þórdísar og hverfisráða svæðanna þó eftirmálar einstakra mála þurfi að koma í ljós. Það sé sameiginleg ósk allra hlutaðeigandi að fólk gæti sín í umræðunni og sýni umburðarlyndi. Málið sé orðið ljótt og andstyggilegt en vonandi megi stýra því á þann veg að sem fæst standi sár eftir. 

Tilkynningin í heild: 

Leikhópurinn Lotta, hverfisráð Raufarhafnar og hverfisráð Öxarfjarðar senda frá sér eftirfarandi yfirlýsingu: 
 
Málið sem nú er í umræðunni er okkur öllum þungbært, sem og eftirmálar þess. Við viljum nú gera það sem við getum til þess að lægja öldurnar. 
 
Mikil og góð samskipti hafa átt sér stað milli Leikhópsins Lottu, hlutaðeigandi meðlima hópsins og fulltrúa hverfisráða á Kópaskeri og Raufarhöfn. Það er fullur skilningur á milli okkar allra um að mistök áttu sér stað sem drógu þennan dilk á eftir sér. Málinu er þannig lokið á góðum nótum milli leikhópsins, Þórdísar sjálfrar og hverfisráða svæðanna þó eftirmálar einstakra mála verða að fá að þróast og koma í ljós.  
Það er sameiginleg ósk okkar að við öll gætum að okkur í umræðunni, sýnum umburðarlyndi og í framhaldinu lærum af þeim mistökum sem gerð hafa verið. Málið er því miður orðið ljótt og andstyggilegt en vonandi getum við stýrt því á þann veg að sem fæst okkar standi sár eftir. 
 
Virðingarfyllst, 
Anna Bergljót Thorarensen framkvæmdastjóri Leikhópsins Lottu, Ingibjörg Hanna Sigurðardóttir formaður hverfisráðs Raufarhafnar og Tryggvi Hrafn Sigurðsson formaður hverfisráðs Öxarfjarðar.  

 

 

arnhildurh's picture
Arnhildur Hálfdánardóttir
Fréttastofa RÚV