Athugið þessi frétt er meira en 7 mánaða gömul.

Fara í fimleikahringferð á húsbíl

Mynd: RÚV / RÚV

Fara í fimleikahringferð á húsbíl

22.07.2020 - 20:55
Karlalandsliðið í hópfimleikum ákvað að ferðast innanlands í sumar og setja upp fimleikasýningar á landsbyggðinni. Með því á að hvetja drengi til að iðka íþróttina.

Íþróttadeild RÚV hittum landsliðið þegar þeir voru að leggja lokahönd á að pakka í húsbílana sem þeir ætla að ferðast á um landið næstu tíu daga.

„Við erum að fara hringinn í kringum landið til að setja upp sýningar og svona smiðjur eftir sýningar. Við hvetjum alla til að koma, börn og unglinga af báðum kynjum og foreldra líka því þau hafa örugglega mjög gaman af þessu. Þetta er sturlað flott sýning og við lofum geggjaðri flugeldasýningu,“ segir Guðmundur Kári Þorgrímsson, landsliðsmaður í fimleikum.

Þeir koma við á átta stöðum á landsbyggðinni og setja þar upp fimleikasýningar sem eru opnar öllum. Í dag heimsóttu þeir Akranes og Stykkishólm og næst liggur leiðin norður á Hvammstanga.

„Tilgangurinn með þessu er að sýna stráka í fimleikum á Íslandi. Fara hringinn og efla drengi á landsbyggðinni til þess að koma og vera með,“ segir Guðmundur.

Hægt er að fylgjast með verkefni landsliðsins á Instagram og á Facebook. Innslagið má sjá í spilaranum að ofan.