Athugið þessi frétt er meira en 2 ára gömul.

Áskorun að aðlagast íslensku samfélagi

Mynd: Bjarni Rúnarsson / RÚV
Sýrlensk kona sem flutti hingað til lands árið 2016 ásamt fjölskyldu sinni segir það margþætta áskorun að setjast að á Íslandi, ekki síst í dreifðari byggðum. Styðja þurfi betur við bakið á flóttafólki og auka fræðslu meðal barna og fullorðinna um mismunandi menningarheima.

Fayrouz var í hópi flóttafólks sem fluttist til Akureyrar frá Sýrlandi fyrir fjórum árum. Hún segir að fjölskyldunni hafi verið mjög vel tekið strax í upphafi. Hún lauk meistaranámi í félagsvísindum frá Háskólanum á Akureyri í vor. Lokaverkefni hennar snerist um að skoða reynslu múslímskra kvenna af arabískum uppruna sem hafa sest að á Íslandi, utan höfuðborgarsvæðisins. Hún ákvað að taka þennan málaflokk fyrir þar sem hún þekkti það á eigin skinni hvernig er að aðlagast samfélagi sem er mjög frábrugðið því sem hún þekkti áður. 

„Fyrsta áskorunin fyrir þær var sú sama og hjá mér, veðrið, myrkrið og skammdegið. En þegar tengslin við samfélagið jukust komu upp önnur vandamál eins og menningarbundinn munur, trúarbrögðin, ólík lífsviðhorf og skólakerfið,“ segir Fayrouz.

Forvitið um slæðurnar

Á heildina litið gangi þeim sem tóku þátt í rannsókninni vel að aðlagast hér á landi þrátt fyrir áskoranir. Oft og tíðum séu Íslendingar ekki meðvitaðir um siði og venjur múslima varðandi trúarathafnir, menningu og fatnað. Fólk sé forvitið um af hverju múslimskar konur gangi með slæðu.

„Fólk spurði oft hvort að við eigum þar val og af hverju við berum slæðu? Fyrst þarf að glíma við forvitni hjá fólki eins og þegar það spyr í sífellu af hverju maður beri þennan lit og ekki annan, af hverju ein slæðan sé frábrugðin hinni. Aðrir spurja hvort að maður sé með hár.“ segir Fayrouz.

Hún segir að í langflestum tilfellum sé það val hvers og eins að ganga með slæðu. Það geti verið framandi að umgangast fólk sem gengur með slæðu í litlu samfélagi og tekið tíma að aðlagast. Þátttakendur hafi fundið fyrir því að klæðaburður þeirra hafi vakið athygli meðal íbúa.

Tungumálið stór hindrun í aðlögun

Eitt af því sem er mjög takmarkandi í aðlöguninni er tungumálaörðugleikar. Fólk hefur oft á tíðum hvorki tök á ensku né íslensku og segir hún að þó svo að sá stuðningur sem fólk fær fyrst eftir að það kemur til landsins sé mjög kærkominn þá sé hann of skammvinnur. Það taki meira en eitt ár fyrir fólk að ná tökum á nýju frábrugðnu og framandi tungumáli.  Hún segir að börn eigi mjög gott með að læra tungumál og nái fljótt tökum á því, en huga þurfi betur að þeim sem eldri eru og það taki þá lengri tíma að ná góðum tökum á íslensku.  

Hún segir að börn og fullorðnir séu oft ekki meðvituð um siði múslima, til að mynda í föstumánuði þeirra. Auka megi fræðslu um öll trúarbrögð í skólum.

„Mér finnst að það skorti upplýsingar og ég ræddi það í rannsókninni að það mætti upplýsa samfélagið meira um okkur. Ég á ekki við að kenna um íslam því ég veit að flestir hér eru kristnir og því ljóst að það er kennt hér. En bara að upplýsa um einfalda hluti um okkur kæmi að gagni fyrir börnin okkar og einnig fyrir þjóðfélagið til skinings á okkur.“ segir Fayrouz.

Annað sem Fayrouz bendir á er mismunandi aðferðir á milli menningarheima varðandi menntun barna. Hún segir að skólakerfið hér á landi sé mjög frábrugðið því sem fólk á að venjast í heimalandinu. Nám hér byggist á annarri nálgun varðandi námsmat og hæfni barna. Því séu foreldrar sem hún ræddi við ekki alltaf meðvitaðir um hvar börn þeirra standa gagnvart samnemendum sínum. Því þurfi að auka upplýsingastreymi á milli skólanna og foreldra.