Samkvæmt frumvarpinu verður kjörtímabil forseta Íslands lengt úr fjórum árum í sex. Þá er lagt til að forseta sé óheimilt að sitja lengur en tvö kjörtímabil, eða tólf ár.
Einnig er lagt til að fjölga meðmælendum sem þurfa að standa að baki hvers forsetaframbjóðenda. Eins og er þarf hver forsetaframbjóðandi að safna undirskriftum 1.500 einstaklinga. Samkvæmt frumvarpinu verður gerð sú krafa að forsetaframbjóðendur þurfi undirskriftir 2,5 prósent kosningabærra manna. Miðað við síðustu kjörskrá eru 2,5 prósent kosningabærra manna um 6.300 manns.
Sömuleiðis er kveðið á um að forsætisráðherra geti ekki rofið þing upp á sitt eindæmi. Biðji hann forseta um þingrof þarf forseti að bera þá bón undir forseta Alþingis og formenn þingflokka.
Bróðurparturinn af þeim umsögnum sem borist hafa samráðsgáttinni er ritaður af einstaklingum. Margir þeirra vekja máls á nýju stjórnarskránni sem Stjórnlagaráð lagði drög að árið 2011. Hún var samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu 2012 en var aldrei lögfest.